Kort sem sýnir hvar göngin liggja.

Stór dagur í samgöngusögu Vestfjarða í dag

Í dag er ráðgert að síðasta haftið verði sprengt í nýjum Dýrafjarðargöngum, sem liggja milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á Vestfjörðum. Lengd ganganna í bergi er 5.300 metrar en auk vegskála beggja megin eru göngin 5,6 kílómetrar. Fyrsta sprenging Dýrafjarðarganga var gerð í september 2017 Arnarfjarðarmegin en í október sama ár Dýrafjarðarmegin. Nú er áætlað að verkinu verði að fullu lokið 1. september 2020. Áætlaður kostnaður Vegagerðarinnar af framkvæmdinni auk eftirlits er um níu milljarðar króna og er því um langstærstu einstöku framkvæmd til samgöngubóta að ræða á landinu, frá því göng voru gerð undir Vaðlaheiði.

Byggður er nýr vegur beggja vegna gangamunna. Nýir vegir eru u.þ.b. þrír kílómetrar Arnarfjarðarmegin og 4,8 km Dýrafjarðarmegin, samtals um 7,8 km auk tenginga. Í tengslum við vegagerð að göngunum er verið að byggja nýjar brýr á Mjólká (14 m) og Hófsá (16 m).  Einnig var byggð bráðabirgðabrú á Hófsá.  Verktakar við gangagerðina eru Metrostav a.s. og Suðurverk hf.

Líkar þetta

Fleiri fréttir