Hér eru félagar í Hurtswic hópnum að prófa sig áfram við járngerð.

Reyna að ráða gátuna um rauðablástur á Íslandi

Dagana 30. ágúst til 1. september í haust stendur mikið til í Reykholti í Borgarfirði. Félagsskapurinn Hurtswic mun þá standa fyrir þriggja daga samfelldri járngerð í þorpinu sem gestum og gangandi er boðið að taka virkan þátt í. Unnið verður járn úr jarðveginum og það mótað í ofnum sem kyntir eru með mó, eins og gert var fyrr á öldum. Hurtswic hópurinn hefur undanfarin 20 ár staðið fyrir ítarlegum rannsóknum á hverju því sem viðkemur víkingabardögum, allt frá bardagatækni til vopnagerðar. Viðburðurinn í Reykholti í haust er einmitt liður í þeim rannsóknum; að komast til botns í því hvernig járn var gert hérlendis á söguöld. „Allar heimildir benda til þess að járngerð hafi verið öðruvísi háttað á þessum tíma hér á Íslandi en í Skandinavíu og annars staðar í Evrópu. Hvers vegna vitum við ekki fyrir víst, en okkur langar að vita það. Þess vegna höfum við sett saman hóp sérfræðinga sem ætlar að hittast í Reykholti og prófa að búa til járn í haust. Þar munum við prófa ýmsar aðferðir til járngerðar, skrásetja og mæla allan árangur ítarlega,“ segir William Short, stjórnandi Hurtswic, í samtali við Skessuhorn.

Nánar er rætt við William í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir