Akraneskaupstaður skilar 826 milljóna króna jákvæðri niðurstöðu

Alls varð 826 milljóna króna afgangur af rekstri Akraneskaupstaðar á síðasta ári. Er það 631 milljón króna betri afkoma en áætlað var í fjárhagsáætlun ársins 2018 að teknu tilliti til viðauka hennar. „Það skýrist af 668 milljóna króna hærri tekjum en áætlað var vegna launatekna íbúa, meiri umsvifa í sveitarfélaginu og söluhagnaði eigna,“ segir í frétt á vef Akraneskaupstaðar. Rekstrargjöldin voru 59 milljónum hærri en gert hafði verið ráð fyrir og skýrist það fyrst og síðast af gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga sveitarfélagsins.

Skatttekjur bæjarins voru 424 milljónum króna hærri í fyrra en árið á undan. Framlög Jöfnunarsjóðs hækkuðu um 155 milljónir milli ára og aðrar tekjur jukust um 123 milljónir. Auk þess kom til 71 milljón vegna sölu eigna. Í árslok var heildarvirði eigna Akraneskaupstaðar 14.192 milljónir og jókst um 1.102 milljónir á milli ára. Skuldir og skuldbindingar námu samtals 6.683 milljónum og hækkuðu um 193 milljónir milli ára. Langtímaskuldir jukust um 167 milljónir króna, lífeyrisskuldbinding sveitarfélagsins hækkaði um 240 milljónir en skammtímaskuldir lækkuðu um 214 milljónir. Veltufé frá rekstri samstæðu A og B hluta bæjarsjóðs var 19,5% af heildartekjum, eða 1.490 milljónir króna.

„Traust fjárhagsstaða“

„Ársreikningur Akraneskaupstaðar sýnir ábyrga fjármálastjórn og trausta fjárhagsstöðu. Ljóst er að Akraneskaupstaður hefur fulla ástæðu til að vera sveitarfélag í sókn,“ er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra á vef Akraneskaupstaðar. „Fjárhagsstaða bæjarins hefur styrkst með hverju ári sem líður og nú eru tvö ár í röð þar sem afkoma gefur til efni til að auka við þjónustu, í viðhaldi innviða og frekari fjárfestinga í uppbyggingu,“ segir bæjarstjórinn.

Fjárfestingar Akraneskaupstaðar námu 563 milljónum króna á síðasta ári. Helstu framkvæmdir voru breytingar á húsnæði Brekkubæjarskóla fyrir 23 milljónir, uppbygging Guðlaugar við Langasand fyrir 71 milljón, uppbygging frístundamiðstöðvar og kaup á vélaskemmu við golfvöllinn, samtals 203 milljónir króna og fimleikahús fyrir 61 milljón króna. Þá var 31 milljón varið til gatna og göngustíga auk þess sem gjaldfært var vegna gatnaramkvæmda svo sem á Vesturgötu. „Rekstur Akraneskaupstaður er agaður og borin er virðing fyrir skattfé bæjarbúa. Fjölgun íbúa kallar á nauðsynlega uppbyggingu innviða samhliða mikilvægu viðhaldi á öllum eignum bæjarins. Með ábyrgum rekstri undanfarinna ára eru allar undirstöður rekstrar bæjarfélagsins í góðu lagi og bærinn hefur burði til að takast á við þær áskoranir sem kunna að felast í kælingu efnahagslífsins ef þess gerist þörf. Við horfum því bjartsýn fram á veginn,“ segir Sævar Freyr Þráinsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir