Aarons Ísak Berry söng til sigurs með flutningi á lagi Freddy Mercury; Love of my life.

Tækniskólinn sigurvegari í Söngkeppni framhaldsskólanna

Söngkeppni framhaldsskólanna var haldin í Bíóhöllinni á Akranesi í gærkvöldi. Þar voru flutt atriði 26 framhaldsskóla víðsvegar af landinu. Það voru Vinir hallarinnar sem héldu utan um skipulag viðburðarins ásamt RUV, en keppnin var sýnd í beinni á Ríkissjónvarpsstöðinni. Birgir Þórisson var hljómsveitarstjóri og kynnar voru bræðurnir Jón Jónsson og Friðrik Dór. Fyrirkomulag keppninnar var svipað og á síðasta ári þegar keppnin fór fram í Íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi. Hver skóli fékk tvær og hálfa mínútu til að slá í gegn og var það í höndum dómnefndar og þjóðarinnar með símakosningu að skera úr um sigurvegara.

Hófstilltur flutningur Aarons Ísaks Berry úr Tækniskóla Íslands á laginu Love of my life, eftir Freddy Mercury, þótti skara fram úr að mati dómnefndar. Í öðru sæti varð Anna Róshildur Benediktsdóttir úr Menntaskólanum við Hamrahlíð sem klæddi Súrmjólk í hádeginu eftir Bjartmar Guðlaugsson í nýjan og áður óþekktan búning. Loks var Diljá Pétursdóttir frá Verzlunarskóla Íslands í þriðja sæti en hún flutti lagið Creep eftir bresku hljómsveitina Radiohead.

Frá skólunum á Vesturlandi stigu á stokk í keppninni þær Jóna Alla Axelsdóttir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands, Soffía Meldal Kristjánsdóttir frá Menntaskóla Borgarfjarðar og Elva Björk Jónsdóttir frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir