Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir, bændur á Erpsstöðum, ásamt börnum sínum.

Rjómabúið Erpsstaðir er tíu ára

Í gær var réttur áratugur liðinn síðan Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir, bændur á Erpsstöðum í Dölum, hófu heimavinnslu afurða á bænum með framleiðslu á rjómaís. Þar með var starfsemi Rjómabúsins Erpsstaða hafin og hefur staðið allar götur síðan.

Þorgrímur var að vonum hinn ánægðasti þegar Skessuhorn sló á þráðinn til hans í gær. „Það er alltaf gott hljóðið í okkur. Góður vetur er að baki og full bjartsýni fyrir komandi sumri. Kisan okkar Spóla bíður spennt eftir að taka á móti gestum dagsins í sólinni. Ferðamennirnir eru farnir að láta sjá sig og sólin skín á okkur þessa dagana. Það er brakandi blíða hér í Dölunum, bjart um allan fjörð og ekki ský á lofti nema eftir flugvélarnar sem fljúga hérna yfir,“ segir Þorgrímur hinn ánægðasti í samtali við Skessuhorn.

Aðspurður segir hann að ekkert eitt verði sett á oddinn öðru fremur í tilefni afmælisins. „Fleiri viðburðum ætlum við að standa fyrir í sumar en verið hafa, en það er ekkert orðið fast í hendi enn sem komið er. En við erum alltaf í einhverjum nýjungum. Þessa dagana erum við að fást við nýja osta og reyna að finna nýjar ístegundir og fleira. En það verða ekki stórar breytingar á rútínunni hjá okkur. Samhliða þessu erum við að taka útisvæðið í gegn fyrir sumarið. Þannig að þetta eru mest hefðbundin vorverk og þróunarstarf. Við reynum auðvitað alltaf að bæta okkur frá ári til árs. Sumt gengur úr sér og svo fær maður nýjar hugmyndir og reynir að heimfæra þær, eins og gengur.“

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir