Rof verður á framboði neftóbaks eftir húsbruna í nótt

Laust eftir miðnætti í nótt kom upp eldur í iðnaðarhúsnæði við Stuðlaháls í Reykjavík. Slökkvistarf gekk greiðlega, en miklar skemmdir urðu á framleiðslubúnaði og lager sem í húsinu var. Húsið við Stuðlaháls er í eigu ÁTVR sem hefur um áratugaskeið rekið þar einu íslensku tóbaksframleiðsluna, þar sem íslenska neftóbakið er unnið samkvæmt áratugagamalli hefð. Eftir að slökkvistarfi lauk á þriðja tímanum í nótt varð ljóst að miklar skemmtir hafa orðið innandyra vegna hita, reyks og vatns. Ekki er vitað um eldsupptök og enginn var í húsnæðinu þegar eldurinn kom upp. Fram kemur í fréttatilkynningu frá ÁTVR í morgun að endurnýja þurfi mikið af þeim búnaði sem notaður er til neftóbaksframleiðslunnar en kapp verður lagt á að afla nýs búnaðar og vinna upp nýjum lager. Fram kemur að reikna verði með að það taki um sex mánuði þar til ný framleiðsla kemst á markað.

Íslenska neftóbakið er blandað eftir gamalli uppskrift og inniheldur hrátóbak sem flutt er inn frá Svíþjóð, pottösku, ammoníak, salt og vatn. Þessum efnum er blandað saman eftir leyniuppskrift, sett á loftþéttar eikartunnur og þannig látið lagerast í um það bil sex mánuði. Eftir að tóbakið hefur verkast er það orðið að hörðum köggli sem þá er settur á sigtivél fyrir pökkun til að losa um tóbakið. Fram kemur að lagerstaða pakkaðrar vöru sé að jafnaði um tveggja til þriggja vikna sala, en eitthvað sé auk þess til af vörunni í verslunum víðsvegar um landið. Ljóst sé þó að óhjákvæmilegt verði að rof mun myndast í framboði á íslensku neftóbaki strax í maí en vonast til að fyrirtækið geti sent nýja vöru á markað um miðjan september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir