Grunnskólinn í Stykkishólmi og Amtsbókasafnið, séð úr lofti. Norðurhluti lóðarinnar er vinstra megin í mynd, en það er einmitt sá hluti lóðarinnar sem fyrsti áfangi nær til. Ljósm. sá.

Endurgerð grunnskólalóðar í útboð

Stykkishólmsbær hefur auglýst eftir tilboðum í fyrsta áfanga endurgerðar á lóð Grunnskólans í Stykkishólmi og Amtsbókasafnsins. Er það norðurhluti lóðarinnar sem tekinn er fyrir í fyrsta áfanga, samtals um 6.400 fermetrar.

Helstu verk sem inna þarf af hendi í fyrsta áfanga eru jarð- og lagnavinna, uppsetning ljósastólpa, landmótun og frágangur á þeim stéttum sem falla undir áfangann.

„Um er að ræða eina stærstu fjárfestingu Stykkishólmsbæjar á þessu ári,“ segir Einar Júlíusson, skipulags- og byggingafulltrúi, í samtali við Skessuhorn. „Ég vona að bæjarfélaginu berist góð tilboð þannig að hægt verði að ráðast í þessa mikilvægu framkvæmd,“ segir Einar.

Frestur til að skila tilboðum til skipulags- og byggingafulltrúa rennur út mánudaginn 15. apríl næstkomandi kl. 10:00, en þá verða tilboðin opnuð. Lokaskiladagur verksins samkvæmt útboðinu er næsta haust, föstudaginn 9. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir