Starfsemi Wow air hætt

Starfsemi flugfélagsins Wow air hefur verið hætt og öllum flugum félagsins hefur verið aflýst. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef flugfélagsins.

Á þriðjudaginn hafði verið tilkynnt að skuldabréfaeigendur Wow air hefðu samþykkt að breyta sínum kröfum í félagið í hlutafé. Kröfuhafarnir höfðu þannig í raun tekið félagið yfir og Skúli Mogensen, forstjóri Wow, því ekki lengur eini eigandi þess.

Á sama tíma var greint frá því að flugfélagið myndi leita mögulegra fjárfesta til að koma með fimm milljarða króna inn í rekstur félagsins.

Í tilkynningu Wow er farþegum sem hafa keypt miða með kreditkorti ráðlagt að hafa samband við kortafyrirtækið sitt. Þeir sem eiga bókaða ferð sem inniheldur gistingu og flug með Wow í gegnum evrópskar ferðaskrifstofur njóta verndar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um ferðapakka og tengdar ferðaáætlanir. Þeir farþegar sem hafa keypt ferðatryggingu, eða eru tryggðir með kreditkortinu sínu, geta átt rétt á að gera gröfu vegna tafa og ferðatruflana. Oft eru slíkar bætur aftur á móti takmarkaðar.

Farþegar gætu einnig átt rétt á bótum frá Wow air, samkvæmt reglum Evrópusambandsins um réttindi flugfarþega. Ef um gjaldþrot félags er að ræða skulu kröfurnar berast stjórnanda/skiptastjóra.

Tilkynningu til farþega Wow air vegna málsins má lesa á íslensku á vef Samgöngustofu. Þar er farið yfir réttindi flugfarþega og þeim ráðlagt hvert skuli snúa sér til að komast á áfangastað.

Líkar þetta

Fleiri fréttir