Fulltrúar sveitarfélaga, Fjarskiptasjóðs og ráðuneytisins við undirritun samninga við sveitarfélög um ljósleiðaravæðingu í dreifbýli.

Áfram haldið með ljósleiðaravæðingu í dreifbýli

Skrifað hefur verið undir samninga um svokalla samvinnustyrki til sveitarfélaga sem greiðast úr ríkissjóði í gegnum Fjarskiptasjóð auk byggðastyrkja sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið úthlutar. Renna styrkirnir til ljósleiðaravæðingar í tengslum við verkefnið Ísland ljóstengt. Fjórtán sveitarfélög eiga að þessu sinni kost á byggðastyrk á grundvelli byggðaáætlunar og 22 sveitarfélög eiga kost á samvinnustyrk.

Samningarnir gefa 23 sveitarfélögum kost á samtals um 1.475 milljónum króna í styrki á árunum 2019 til 2021 til þess að tengja með ljósleiðara allt að 1.700 styrkhæfa staði auk fjölda annarra bygginga samhliða sem ekki hljóta styrk. Eigið framlag sveitarfélaga/íbúa er umtalsvert og að lágmarki 500.000 kr. fyrir hvern tengdan styrkhæfan stað. Samningar árin 2020 og 2021 eru með fyrirvara um fjárlög. Styrkveitingarnar miðast við að tryggja verklok hjá allflestum sveitarfélögum sem um ræðir og þar með að náð verði að mestu leyti markmiði ríkisstjórnarinnar um ljósleiðaravætt dreifbýli landsins. Stefnt er að því að lokaúthlutun á grundvelli Ísland ljóstengt verði á næsta ári með það að markmiði að öll áhugasöm sveitarfélög ljúki lagningu ljósleiðara í dreifbýli fyrir árslok 2021 hið síðasta.

Verkefnið Ísland ljóstengt hófst formlega vorið 2016 og var eins og kunnugt er undir forystu þingmannanna Haraldar Benediktssonar og Jóhanns Páls Pálssonar sem fylgt hafa verkefninu eftir frá upphafi. Þetta er fjórða úthlutun Fjarskiptasjóðs og jafnframt þriðja úthlutun ráðuneytisins á grundvelli byggðaáætlunar á jafn mörgum árum. Útlit er fyrir að verkefnið nái þegar upp er staðið til um rétt tæplega sex þúsund styrkhæfra staða um allt land. Með þessum og fyrri samningum er þegar búið að semja um 5.750 tengistaði. Hlutfall styrkhæfra staða sem tengdir verða í verkefninu öllu stefnir í að verða vel yfir 90%, segir í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir