Það er jafnan stór stund þegar laxveiðisumarið hefst. Hér er rennt fyrir fyrstu fiskana í fyrrasumar. Sindri Sigurgeirsson með fyrsta lax sumarsins á króknum en honum til aðstoðar er Einar Sigfússon. Ljósm. mm.

Telja náttúrulega laxastofna eiga að njóta vafans

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur sent sveitarfélögum til umsagnar frumvarp til laga um fiskeldi. Í því felst meðal annars áhættumat vegna erfðablöndunar við náttúrulega laxastofna, úthlutun eldissvæða til fiskeldis í sjó, stjórnvaldssektir ef á lögunum er brotið og fleiri atriði. Sveitarfélagið Borgarbyggð fékk frumvarpið til umsagnar og bókaði allítarlega vegna þess, enda eru fjölmargar af fengsælustu laxveiðiám landsins að finna í sveitarfélaginu og miklir hagsmunir í húfi.

Í bókun byggðarráðs frá síðasta fimmtudegi segir m.a. að byggðarráð hvetji Alþingi til að gera nauðsynlegar endurbætur á frumvarpinu svo tryggt verði að lífsafkomu íbúa á þeim svæðum landsins, þar sem virði laxveiðiáa skiptir verulegu máli í viðhaldi búsetu og afkomu almennings, verði ekki ógnað. „Á Vesturlandi nær starfsemi veiðifélaga og veiðifélagsdeilda til 620 lögbýla. Á Vesturlandi eru tekjur veiðifélaga og veiðiréttarhafa um þriðjungur af öllum slíkum tekjum á landinu. Þar fyrir utan er margvísleg afleidd þjónusta í tengslum við laxveiði sem skapar tekjur og lífsviðurværi fyrir íbúa sveitarfélagsins. Í Borgarbyggð einni er að finna nokkar af verðmætustu laxveiðiám landsins. Því er það gríðarlegt hagsmunamál fyrir Borgarbyggð og nærsveitir á Vesturlandi að tekið sé mið af þýðingu villtra laxastofna fyrir afkomu íbúanna og búsetuskilyrðum í héraðinu þegar Alþingi fjallar um frumvarp til laga um fiskeldi. Sjálfbær nýting íslenskra laxa- og silungastofna er ein meginstoð landbúnaðar í Borgarbyggð.“

Gríðarlega miklum hagsmunum ógnað

Þá minnir byggðarráð á að samkvæmt nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ eru 69% af launakostnaði og hagnaði í landbúnaði á Vesturlandi vegna tekna af stangveiði. „Þegar lagt er mat á þessa stöðu fyrir landið í heild sinni er þetta hlutfall 28%. Sjókvíaeldi á frjóum norskum laxi er ógn við verðmæti sem hafa verið varðveitt í margar kynslóðir á lögbýlum landsins. Ef þessi tekjustofn laskast eða hverfur mun það hafa ófyrirsjánlegar afleiðingar í búsetu í dreifðum byggðum sveitarfélagsins. Útsvars- og fasteignaskattar margra sveitarfélaga í laxveiðihéruðum Íslands geta skerst verulega ef svo skyldi fara, með alvarlegum afleiðingum fyrir þessi samfélög.“

Byggðarráð bendir jafnframt á að frumvarpið samræmist ekki þeirri markmiðsyfirlýsingu sem kemur núgildandi lögum um fiskeldi sem felur í sér að vöxtur og viðgangur fiskeldis megi ekki gerast á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskstofna. „Í athugasemdum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 71/2008 er sérstaklega tekið fram að þegar ekki fara saman hagsmunir þeirra sem eiga veiðirétt samkvæmt lax- og silungsveiðilögum og hins vegar hagsmunir þeirra sem stunda fiskeldi eigi þeir síðarnefndu að víkja. Ekkert samráð hefur verið haft við sveitarfélög þar sem stór hluti íbúa á lífsafkomu sína að stóru eða öllu leyti undir tekjum af veiðihlunnindum. Alþingi verður að grípa í taumana og forða afleiðingum þess að tugmilljónir laxa af framandi stofni verði hafðir í netpokum við strendur landsins með tilheyrandi hættu á sleppingarslysum. Í því samhengi er rétt að minna á að Erfðanefnd landbúnaðarins telur að áætlanir um stóraukið laxeldi í sjókvíum hafi ófyrirséðar afleiðingar og ráðleggur stöðvun á útgáfu leyfa.“

Að lokum segir í ályktun byggðarráðs: „Byggðarráð Borgarbyggðar ítrekar mikilvægi þess að gætt sé fyllstu varfærni í því að auka fiskeldi í sjó þannig að ekki verði unninn óafturkræfur skaði á þeirri sérstöðu sem Ísland hefur í okkar heimshluta vegna hinna einstöku villtu laxastofna sem styrkja búsetu og veita atvinnu í gegnum verðmætar laxveiðiár.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir