Öryrkjar skrifa ekki uppá tillögur um nýtt framfærslukerfi

Ríkisstjórnin setti á síðasta ári á stofn samráðshóp um breytt framfærslukerfi almannatrygginga. Nú eru komin fram lokadrög að skýrslu hópsins. Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður Öryrkjabandalags Íslands var meðal þátttakenda í starfi hópsins. „ÖBÍ hefur tekið þá afstöðu að skrifa ekki undir skýrsluna. Það er gert af þeirri ástæðu að lausir endar í því starfi eru einfaldlega of margir. Mannsæmandi afkoma er ekki tryggð. Krónu-á-móti-krónu skerðing verður ekki afnumin skilyrðislaust. Ekki er tekið á samspili lífeyriskerfisins og almannatrygginga, vinnumarkaðsmálin óklár, og svona má áfram telja,“ segir í yfirlýsingu frá ÖBÍ. Þá hefur Alþýðusamband Íslands tekið undir sjónarmið ÖBÍ og skrifar heldur ekki undir skýrslu samráðshópsins.

„Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingar er ein af þeim úrbótum sem hægt er að framkvæma strax ef vilji er fyrir hendi, án þess að farið verði í kerfisbreytingar eða heildarendurskoðun á almannatryggingalögunum ljúki. Þessi afstaða ÖBÍ hefur lengi verið ljós. Henni hefur verið haldið fram gagnvart stjórnvöldum og almenningi um margra ára skeið. Núverandi ríkisstjórn rígheldur í kröfu um að þessi óréttláta skerðing, sem tæplega verður kölluð annað en kerfisbundið ofbeldi, verði ekki afnumin nema ÖBÍ fallist á að taka upp svokallað starfsgetumat og breiði faðminn á móti nýju framfærslukerfi almannatrygginga. Það er ekki til umræðu að afnema óréttlætið. Það er bara „computer says no“. Krónu á móti krónu skerðing hittir það fólk verst sem hefur lægstu framfærsluna í íslensku samfélagi og ef stjórnvöld vilja vinna gegn fátækt, ætti afnám hennar ekki aðeins að vera forgangsmál. Því ætti að vera löngu lokið,“ segir í frétt ÖBÍ um afstöðu félagsins um tillögu um nýtt framfærslukerfi almannatrygginga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Spíttbústaður

Umsjónarmenn sumarbústaðar í Hvalfirði höfðu samband við Lögregluna á Vesturlandi í vikunni sem leið. Bústaðurinn er leigður út til skamms... Lesa meira