Júlíana – hátíð sögu og bóka sett í Stykkishólmi í kvöld

Júlíana – hátíð sögu og bóka verður haldin í sjöunda sinn um helgina. Hátíðin hefst formlega með opnunarhátíð á Vatnasafninu í kvöld klukkan 20. „Fyrir hátíðina efndum við til smásagnakeppni og okkur bárust 41 saga. Við opnunina á Vatnasafninu verða veitt verðlaun fyrir 1.-3. sæti auk þess sem við veitum einum Hólmara viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningarmála í Stykkishólmi,“ segir Þórunn Sigþórsdóttir, ein af skipuleggjendum hátíðarinnar í samtali við Skessuhorn. Í kjölfar opnunarinnar í Vatnasafninu verður opnuð sýning um Júlíönu Jónsdóttur, sem hátíðin er nefnd eftir, í Norska húsinu – Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla og verður sýningin opin fram á sumar. Sýningin ber nafnið Lítil mær heilsar en það er upphafið af einu ljóði Júlíönu.

„Við höfum alltaf fengið einn listamann til okkar að vinna með nemendum í grunnskólanum að einhverju verkefni. Í ár kom til okkar Ævar Þór Benediktsson vísindamaður og hann hefur verið að kenna krökkunum skapandi skrif. Á föstudeginum á Amtbókasafninu stíga nemendurnir svo á stokk og lesa undir handleiðslu Ævars smásögurnar,“ segir Þórunn. Á föstudeginum klukkan 15 verða myndir yngstu nemenda Grunnskólans í Stykkishólmi settar upp í gluggum á Skipavík. „Þema myndanna er ótti og hugrekki og verður sýningin sett upp þannig að myndirnar sjást út um gluggann svo hægt verður að skoða þær hvenær sem er dagsins. Næst mun Nanna Guðmundsdóttir lesa fyrir yngstu börnin á Hótel Egilsen. Þá munu sveinar og meyjar fara um víðan völl og lesa upp úr bókinni Ör eftir Auði Övu,“ segir Þórunn.

Myndast hefur sú hefð að á föstudagskvöldi hátíðarinnar eru sögustundir í heimahúsum. Gréta Sigurðardóttir, forsprakki hátíðarinnar, mun taka á móti gestum á sínu heimili klukkan 20 þar Anna Sigrún Baldursdóttir og Guðrún Marta Ársælsdóttir segja sögu með yfirskriftinni Harry Potter og heilablæðingin. „Ég ætla svo að bjóða heim til mín klukkan 21 þar sem yfirskriftin verður „Af hverju er ég hér,“ þar sem fólk af erlendi bergi brotið og búsett í Stykkishólmi segir frá af hverju það endaði hér,“ segir Þórunn. Á laugardaginn spila þekktir rithöfundar stóran part í dagskránni. „Við erum alltaf með leshóp fyrir hátíðina og er öllum velkomið að taka þátt. Í ár lásum við bókina Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur og hún mun hitta okkur í Hótel Egilsen þar sem við fáum okkur Júlíönusúpu saman og ræðum um bókina,“ segir Þórunn. Síðar um daginn mun Gerður Kristný rithöfundur fjalla um bókina sína Sálumessu í gömlu kirkjunni og eftir henni kemur Guðrún Eva Mínervudóttir einnig í gömlu kirkjuna og fjallar um Ástina, Texas. „Viktor Arnar Ingólfsson rithöfundur verður í Vatnasafninu á laugardaginn þar sem mun fjalla um bókina sína Flateyjargátuna. Um kvöldið verður Þorgrímur Pétursson trúbador í Norska húsinu – Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla, þar sem hann ætlar að flytja lög af nýútkomnum diski sínum sem heitir Álög.“ Opnuð verður í vinnustofu Tang og Riis lítil yfirlitssýning á verkum Ingibjargar Helgu Ágústsdóttur, Ævintýraboxið. Þar sýnir eldri verk í bland við ný verk og verk í vinnslu. Sýningin verður opin alla hátíðardagana.

Nánari dagskrá er á Facebook síðu háíðarinnar: Júlíana – hátíð sögu og bóka.

Líkar þetta

Fleiri fréttir