Nemendur Grundaskóla eiga hér í samskiptum við samnemanda sinn í gegnum „Nærveruna“ í rauntíma. Ljósm. Akraneskaupstaður.

Vélmenni til náms í Grundaskóla

Krabbameinsfélag Akraness og nágrennis festi nýverið kaup á vélmenni sem nefnist Beam upp á enska tungu og hefur það verið tekið í notkun í Grundaskóla á Akranesi. Þar á bæ kjósa nemendur og starfsfólk að kalla vélmennið „Nærveru“. Tækið er hannað til að aðstoða nemendur sem geta ekki sótt skóla vegna langvarandi veikinda. Það virkar þannig að nemandi getur stjórnað tækinu í gegnum tölvu frá heimili sínu og þannig mætt í skólann, fylgst með og tekið þátt í umræðum í tímum, ferðast á því um húsnæði skólans og átt í samskiptum við bæði nemendur og starfsfólk í rauntíma. Nærveran aðstoðar nú einn nemanda við námið, en viðkomandi getur ekki mætt í skólann vegna erfiðra veikinda. „Grundaskóli er framsækinn skóli sem nýtir nýjustu tækni í skólastarfinu til að efla og bæta námið,“ segir á vef Akraneskaupstaðar. Þar segir jafnframt að um sé að ræða frumkvöðlastarf í íslenskum grunnskóla. „Tækið mun vonandi í framtíðinni nýtast fleirum sem þurfa á að halda í langvarandi læknismeðferð,“ segir á vef bæjarins.

Sams konar vélmenni hafa þegar verið tekin í notkun í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Í desember festi skólinn kaup á tveimur slíkum tækjum og hafa þau þegar sannað gildi sitt, eins og sagt var frá í Skessuhorni fyrir skemmstu. Snæfellingar kjósa hins vegar að kalla tækin „Fjærverur“. Þá hefur sambærilegur búnaður einnig verið notaður í skólastarfi við Háskólanum á Akureyri og Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir