Stöðvaður á ofsaakstri við Gufuá

Ungur ökumaður var tekinn við ofsaakstur á Vesturlandsvegi við Gufuá í Borgarhreppi um kaffileytið á laugardaginn. Maðurinn var mældur á hvorki meira né minna en 172 km/klst. hraða, en hámarkshraði á veginum er 90 km/klst. Ökumaðurinn viðurkenndi brot sitt. Að sögn lögreglu á maðurinn yfir höfði sér ökuleyfissviptingu og 240 þúsund krónur í sekt. „Ökumaður sem ekur á 172 km/klst. hefur enga möguleika á að grípa inn í ef eitthvað kemur upp á við aksturinn og skapar því stórhættu bæði fyrir sjálfan sig og aðra vegfarendur,“ segir lögregla sem lítur málið alvarlegum augum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir