Væntanlegur vegur um Teigsskóg er grænmerktur á þessari teikningu.

Sníða af vankanta áður en aðalskipulagstillaga verður kynnt

Skipulagsstofnun gaf Reykhólahreppi fyrr í mánuðinum umsögn um tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Vestfjarðavegar. Stofnunin hefur það lögboðna hlutverk að yfirfara framsetningu og efni aðalskipulagstillagna sveitarfélaga áður en þær eru auglýstar til opinberrar kynningar fyrir almenningi. Tilgangur þess er að tryggja að framsetning skipulagstillagna sé skýr og að efni þeirra og framsetning sé í samræmi við fyrirmæli laga, reglugerða og stefnu stjórnvalda. „Í umsögn stofnunarinnar til Reykhólahrepps er bent á nokkur atriði sem bæta þarf í skipulagstillögunni. Þau varða helst umfjöllun um samræmi skipulagstillögunnar við náttúruverndarlög og stefnu stjórnvalda, umfjöllun í tillögunni um niðurstöður mats á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar frá árinu 2017 og upplýsingar um rannsóknir á náttúrufari sem unnar hafa verið eftir að mati á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar lauk. Einnig upplýsingar um áformaðar mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa vegarins,“ segir í frétt Skipulagsstofnunar um afgreiðsluna. Þá áréttar stofnunin að í umsögninni sé hinsvegar ekki gerð krafa um að færð séu frekari rök fyrir nauðsyn þess að leggja veginn eftir leið ÞH um Teigsskóg,“ eins og komið hafði fram í frétt sem Ríkisútvarpið flutti um málið; „enda liggur fyrir í bókunum sveitarstjórnar við afgreiðslu málsins að fulltrúar í sveitarstjórn telja sér ekki fært að velja aðra leið.“

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps 12. mars síðastliðinn voru athugasemdir Skipulagsstofnunar við tillögu að aðalskipulagsbreytingu vegna Vestfjarðavegar lagðar fram. Sveitarstjóra var þar falið í samráði við Vegagerðina og Alta að lagfæra tillöguna í samræmi við fram komnar athugasemdir Skipulagstofnunar og samþykkti meirihluti hreppsnefndar að eftir það verði tillagan auglýst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira