Gunnar Svanlaugsson, Davíð Sveinsson, María Alma Valdimarsdóttir og Ríkharður Hrafnkelsson. Ljósm. HSH.

Snæfellingar heiðraðir á héraðsþingi HSH

Héraðsþing Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu var haldið í Stykkishólmi á fimmtudag. Þar voru meðal annars veittar viðurkenningar fyrir starf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Það voru þau Ríkharður Hrafnkelsson, Gunnar Svanlaugsson, María Alma Valdimarsdóttir og Davíð Sveinsson sem voru heiðruð fyrir sitt framlag. Jóhann Steinar Ingimundarson, stjórnarmaður UMFÍ, afhenti starfsmerki UMFÍ og Garðar Svansson, stjórnarmaður ÍSÍ, afhenti viðurkenningar fyrir hönd sambandsins.

Ríkharður var sæmdur gullmerki ÍSÍ. Hann varð árið 1984 fyrsti formaður Golfklúbbsins Mostra í Stykkishólmi og gegndi formennsku til 2009, en hann var auk þess forsvarsmaður að stofnun klúbbsins. Þá hefur hann starfað fyrir körfuknattleikssambandið og setið þar í mótanefnd til nokkurra ára. Ríkharður fékk gullmerki KKÍ 1991, gullmerki GSÍ 2004 og silfurmerki ÍSÍ 2003. „Hann hefur starfað vel fyrir íþróttahreyfinguna og starfar ennþá. Hann er í vallarnefnd Mostra auk annarra verkefna fyrir Héraðssambandið og aðrar íþróttagreinar,“ segir á Facebook-síðu HSH.

Gunnar Svanlaugsson var einnig sæmdur gullmerki ÍSÍ. Hann er núverandi formaður kkd. Snæfells og hefur verið virkur í starfi félagsins alla tíð. Hefur hann í gegnum tíðina keppt og þjálfað í flestum íþróttagreinum sem stundaðar eru hjá Snæfelli, að því er fram kemur á síðu HSH.

María Alma Valdimarsdóttir var sæmd silfurmerki ÍSÍ fyrir sitt framlag til íþróttahreyfingarinnar. Hún hefur setið í aðalstjórn Snæfells óslitið frá því árið 1993, fyrst sem ritari en sem gjaldkeri frá 1997. Hún var í stjórn sunddeildar og keppti lengi í sundi og blaki fyrir Snæfell. Þá annaðist hún sundþjálfun félagsins um langt skeið.

Davíð Sveinsson var sæmdur starfsmerki UMFÍ. Hann hefur lengi setið í stjórn Snæfells, var formaður frá 1989-1990 og hefur setið í stjórnum flestra deilda félagsins undanfarin 40 ár og er enn gjaldkeri körfuknattleiksdeildarinnar. Áður keppti hann lengi í körfubolta og fótbolta fyrir Snæfell og hefur lagt sitt af mörkum í þjálfun og dómgæslu fyrir félagið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir