Rut Ragnarsdóttir hefur tekið við rekstri Pakkhússins í Snæfellsbæ.

Útgerðin opnar í Pakkhúsinu í Ólafsvík

Rut Ragnarsdóttir tók í byrjun mánaðarins við rekstri Pakkhússins í Ólafsvík og stefnir á að opna þar verslun og veitingasölu. Rut langaði að skapa sér atvinnu í heimabæ sínum eftir að hún lauk fæðingarorlofi um síðustu mánaðamót og fór á fund bæjarstjórnar og bar þar upp beiðni um að leigja Pakkhúsið. „Bæjarstjórn tók vel í erindið og vildi styðja við atvinnuuppbyggingu í bænum. Úr varð að við gerðum leigusamning og ég tók við húsinu núna 1. mars,“ segir Rut. Hún flutti í Snæfellsbæ frá Akranesi ásamt manninum sínum, Heimi Berg Vilhjálmssyni fyrir rúmu ári en sjálf er Rut fædd og uppalin á Hellissandi. „Ég var því að flytja heim aftur og líkar mjög vel að vera komin hingað,“ segir hún en Rut vann áður sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar hjá Vodafone og verkefnastjóri hjá fjárfestingafélaginu GAMMA. „Það má því segja að ég sé að taka algjöra U-beygju í lífinu. En það er bara gaman og lífið er endalaus áskorun, sem gerir það svona skemmtilegt.“

Opið allt árið

Í Pakkhúsinu verður Rut með verslun þar sem hún ætlar að selja minjagripi, handverk, sælkeravörur, íslenska hönnun og léttar veitingar. „Við verðum með boozt, skyr, vefjur og annað léttmeti á boðstólnum. Þetta verður kannski frekar mikið stílað inn á ferðamenn sem geta fengið sér smá hollustu áður en þeir halda lengra í Þjóðgarðinn og svoleiðis, en það verður samt líka margt fyrir heimafólkið,“ segir Rut. Byggðasafnið á efri hæðum hússins verður opið og þangað verða öllum velkomið að líta við og skoða án endurgjalds. „Við viljum að sagan og allt það sem fylgir safninu sé opið fyrir alla og því ætlum við ekki að taka gjald fyrir,“ segir Rut. Aðspurð segist hún ætla að hafa Pakkhúsið opið allt árið þó opnunartímar verði eflaust styttri yfir veturinn. „Fram til þessa hefur húsið verið nýtt að einhverju leyti hluta úr ári en ég ætla að hafa opið allt árið um kring.“ Fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með starfseminni í Pakkhúsinu er bent á Facebook síðu undir nafninu Útgerðin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira