Fulltrúar Oddfellow og þeirra heilbrigðisstofnana sem stúkurnar færðu gjafir. F.v. Smári V. Guðjónsson, yfirmaður Egils, M. Hrönn Ríkharðsdóttir, formaður stjórnar líknarsjóðs Ásgerðar, Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, Björn Bjarki Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Brákarhlíðar, Kjartan Kjartansson, framkvæmdastjóri Höfða, Sigurður Sigurðsson, formaður stjórnar líknarsjóðs Egils og Salvör Lilja Brandsdóttir, yfirmaður Ásgerðar.

Oddfellowstúkur gáfu til líknarmála í landshlutanum

Á þessu ári eru 200 ár frá því Oddfellowreglan á Íslandi var stofnun. Í tilefni afmælisins tóku Oddfellowstúkurnar á Akranesi; Egill og Ásgerður, höndum saman um gjöf til líknarmála á starfssvæði stúkanna, með stuðningi styrktar- og líknarsjóðs Oddfellow. Var það sameiginleg niðurstaða reglusystkina að láta Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi, Hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfða á Akranesi og Hjúkrunar- og dvalarheimilið Brákarhlíð í Borgarnesi njóta gjafanna. Gjafirnar hafa allar verið teknar í notkun en þær voru formlega afhentar að viðstöddu fjölmenni í Oddfellowhúsinu á Akranesi síðastliðinn laugardag. Smári V. Guðjónsson, yfirmaður stúku Egils og Salvör Lilja Brandsdóttir, yfirmaður stúku Ásgerðar, afhentu gjafirnar fyrir hönd Oddfellow, ásamt Sigurði Sigurðssyni, formanni stjórnar líknarsjóðs Egils og M. Hrönn Ríkharðsdóttur, formanni stjórnar líknarsjóðs Ásgerðar.

Heilbrigðisstofnun Vesturlands voru færðir tveir fæðingamónitorar ásamt fylgihlutum, barkaþræðingatæki og fimm ný sjúkrarúm. Höfða gáfu Oddfellowbræður og -systur nýjan fjölþjálfa og Brákarhlíð færðu þau tvo ný rafmagnsfótahjól. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir, forstjóri HVE, veitti gjöfunum viðtöku fyrir hönd HVE og fékk því næst stjórnendur þeirra deilda sem tækin eru til notkunar til að segja frá þeim. Hrund Þórhallsdóttir, yfirlæknir kvennadeildar, fræddi gesti stuttlega um virkni fæðingamónitorsins og Valdís Heiðarsdóttir, deildarstjóri á lyflækningadeild, sagði frá nýju sjúkrarúmunum. Björn Gunnarsson, yfirlæknir skurð- og svæfingadeildar, sagði frá barkaþræðingartækinu. Björn tók meira að segja tækið með sér, enda lítil og nett græja og lýsti því hvernig það er notað. Kjartan Kjartansson, framkvæmdastjór Höfða, tók við gjöfinni til heimilsins og sagði stuttlega frá því hvernig það er notað í daglegu starfi og það sama gerði Björn Bjarki Þorsteinsson framkvæmdastjóri fyrir hönd Brákarhlíðar. Öll sem eitt þökkuðu þau Oddfellow fyrir veittan stuðning og sögðu að gjafirnir myndu koma að góðum notum í starfi stofnananna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir