Kastalinn í Búðardal fær nýja eigendur

Á næstu dögum munu Ásdís Kr. Melsted og Jóhannes Haukur Jóhannesson hætta rekstri gistiheimilisins Kastalans í Búðardal. Gistiheimilið opnuðu þau við Brekkuhvamm 1 vorið 2016 en nú hafa þau selt reksturinn þeim Skildi Orra Skjaldarsyni og Carolin A Baare Schmidt. „Við ætlum okkur að halda áfram þessum fína rekstri sem verið hefur á gistiheimilinu fram til þessa,“ segir Skjöldur þegar Skessuhorn sló á þráðinn til hans. Carolin rekur nú þegar bæði tjaldstæðið í Búðardal og hestaleigu undir nafninu Dalahestar og Skjöldur starfar sem neyðarflutningamaður á Heilbrigðisstofnun Vesturlands og sem kennari í Auðarskóla. „Þetta fer held ég bara ágætlega saman, Carolin er kannski meira í ferðaþjónustunni en við ætlum að reka gistiheimilið saman. Við stefnum á að reka þetta með óbreyttum hætti og bara halda vel í þessa frábæru einkunn sem gistiheimilið hefur fengið frá gestum fram til þessa,“ segir Skjöldur.

Aðspurður segist Skjöldur hafa fulla trú á rekstri Kastalans og segir hann Dalina eiga mikið inni í ferðaþjónustunni. „Ég held að staðsetningin sé frábær því á meðan önnur landssvæði hafa verið yfirsetin af ferðamönnum hingað til held ég að Dalirnir eigi mikið inni. Við hjónin erum í bullandi ferðamannavinnu nú þegar með tjaldstæðið og hestaleiguna og við trúum því að gistiheimilið sé góð viðbót. Ef maður hefur trú á því sem maður hefur að bjóða lætur maður bara vaða,“ segir Skjöldur. „Grundvöllur fyrir öllu er að hafa trú á hlutunum og ég hef trú á því að hér í Dölunum muni ferðamennska fara vaxandi á næstunni,“ bætir hann við.

Líkar þetta

Fleiri fréttir