Listahópurinn sem verður með sýningu í Menntaskóla Borgarfjarðar í vor ásamt leiðbeinendum. Fv. Dario Mentesana, Vignir Þór Kristjánsson, Kristrós Erla Baldursdóttir, Nína Dagrún Hermannsdóttir, Delia Rut Claes og Michelle Bird. Ljósm. arg.

Ungt listafólk í Borgarbyggð undirbýr metnaðarfulla sýningu

Listakonan Michelle Bird í Borgarnesi fór af stað með nýtt verkefni í byrjun árs þar sem hún opnaði skapandi vinnustofu fyrir unga listamenn í Borgarbyggð. Verkefnið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði SSV. „Michelle er að bjóða ungu fólki aðstoð við að skapa list og finna sinn farveg í því. Hún hafði samband við okkur og við hjá Menntaskóla Borgarfjarðar ákváðum að meta þetta verkefni til eininga fyrir þá nemendur okkar sem vildu skrá sig. En við metum líka þátttöku nemenda í skipulögðu skátastarfi og sjálfboðastarfi á vegum Rauða krossins svo eitthvað sé nefnt. Vinnustofan hjá Michelle er tilvalin til að víkka sjóndeildarhringinn og koma með skapandi vinkil inn í námsreynslu nemenda. Það er góð leið til að koma til móts við ólíka nemendur með ólík áhugamál að geta átt samstarf við aðila í nærsamfélaginu eins og hér er gert. Það er svo margt í samfélaginu sem getur verið mannbætandi og menntandi þó það sé ekki kennt innan veggja skólans, hér er því einstakt tækifæri fyrir okkur í MB að vinna að einu af markmiðum skólans sem er að sérhver nemandi hafi tækifæri til að rækta sína hæfileika og ná góðum árangri,“ segir Signý Óskarsdóttir aðstoðarskólameistari í samtali við Skessuhorn. „Við viljum endilega hvetja okkar nemendur til að taka þátt í öllu slíku og okkar leið til þess er að meta það til eininga án þess að slá af kröfum um gæði náms,“ segir Signý.

Sjá ítarlega umfjöllun og spjall við listakonuna og nemendur hennar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.