Frá vettvangi áreksturs tveggja bíla í Hvalfjarðargöngum að morgni þriðjudagsins 12. febrúar sl.

Eftirliti og viðbragðsáætlun ábótavant í Hvalfjarðargöngum

Á þriðjudagsmorgni í liðinni viku varð árekstur tveggja bíla í ofanverðum Hvalfjarðargöngum, um 500 metra frá gangamunnanum að norðanverðu. Tveir menn slösuðust. Atvikalýsing var þannig að lítill jepplingur á norðurleið varð kyrrstæður í göngunum. Virðist sem ökumaðurinn hans hafi verið í vandræðum með aksturinn í nokkurn tíma, ef marka má atburðaskráningu frá vaktstöð Vegagerðarinnar, sem Skessuhorn hefur undir höndum. Öðrum bíl er svo ekið aftan á hinn kyrrstæða. Bilaða bílnum hafði verið ekið út úr því sviði sem Vegagerðin nær að taka upp í eftirlitsmyndavélakerfi sínu og starfsmenn geta séð í vaktstöð. Höfðu þeir því ekki vitneskju um slysið fyrr en þeim berast útkallsboð frá Neyðarlínunni. Eftir að Neyðarlínan fékk boð var ekki sett á hæsta viðbúnaðarstig jafnvel þótt eldsneyti læki frá bílunum og eldhætta því umtalsverð. Loks varð misbrestur á að slökkvilið yrði kallað út með forgangi, en 13 mínútur liðu frá því Neyðarlínu var gert viðvart um slysið og þar til Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út.

Þráinn Ólafsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi, segir í samtali við Skessuhorn að margt hafi greinilega brugðist í þessu óhappi, bæði í eftirliti með umferð, en ekki síður í útkalli Neyðarlínunnar eftir að vegfarandi gerði viðvart. Af þessari reynslu beri að draga lærdóm og mun hann við fyrsta tækifæri kalla til fundar forsvarsmenn Vegagerðar, ríkislögreglustjóra og Neyðarlínunnar til að fara yfir það sem augljóslega verði að bæta í viðbragðsáætlun. Þráinn telur vísbendingar um að menn hafi sofnað á verðinum hvað varðar alvarleika óhappa í jarðgöngum, með tilliti til viðbúnaðar vegna eld- og sprengihættu. Þá kemur einnig fram í fréttaskýringu Skessuhorns í dag að dregið hafi úr þjónustu og öryggi eftir að rekstur ganganna fór úr höndum Spalar og til Vegagerðarinnar síðastliðið haust. Dráttarbíll við gangamunnann og mönnuð vakt í skýli hafi oft komið sér vel, en sú vakt er ekki lengur til staðar. Þá hefur mengun í göngunum aukist, lýsing versnað og endurskinsmerki geri ekki sitt gagn. Allir draga þessir þættir úr öryggi vegfarenda.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira