Vatnaskil í jafnvægi framleiðslu og sölu lambakjöts

Sterkar vísbendingar eru nú um að framleiðsla og sala lambakjöts hér á landi nálgist jafnvægi. Samkvæmt bráðabirgðatölum búnaðarstofu Matvælastofnunar hefur sauðfé á landinu fækkað um 28 þúsund, eða um 10% á síðustu tveimur árum, þar af um 6% árið 2018. Á sama tíma eru batnandi horfur í útflutningi á kjöti sem að stórum hluta má rekja til veikingar krónunnar. Í ljósi sölu lambakjöts hafa að minnsta kosti fjögur afurðasölufyrirtæki á síðustu vikum greitt bændum uppbót á innlegg síðasta hausts, allt upp í 12%, og bætir það mjög þrönga stöðu bænda. Þá hefur einn sláturleyfishafi, Sláturfélag Suðurlands gefið það út að í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og fækkunar sauðfjársláturhúsa hefur fyrirtækið ákveðið að lengja sláturtíð haustið 2019 um þrjá sláturdaga og býður auk þess nýjum innleggjendum á félagssvæði SS að sækja um innleggsviðskipti með sama rétti og þeir sem fyrir eru. Vísað er til þess að sauðfjárslátrun Norðlenska á Höfn í Hornafirði verður hætt í sumar.

Í tilkynningu SS má segja að kveði við nýjan tón, en á síðustu tveimur árum hafa bændur átt erfitt með að færa sig milli afurðastöðva og þær flestar neitað óskum um nýja viðskiptavini. Rætt er við Steinþór Skúlason forstjóra SS í síðasta Bændablaði. Þar segir hann að ýmsar ástæður liggi að baki því að félagið óski nú eftir fleiri innleggjendum. Telur hann að ákveðin vatnaskil séu að verða í sauðfjárframleiðslunni þar sem birgðastaða sé í jafnvægi og útflutningsmarkaðir, meðal annars í Þýskalandi og Noregi, lofi góðu.

Loks má geta þess að þeir sex bændur á landinu sem hafa vottun til framleiðslu og sölu lífrænt ræktaðs lambakjöts geta nú í fyrsta skipti búist við að fá laun þeirrar fyrirhafnar. Horfur eru á að lífrænt vottað lambakjöt frá þeim verði í næstu sláturtíð selt til Þýskalands með 15-20% yfirverði miðað við annað kjöt á þeim markaði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira