Flutningabíllinn á hliðinni utan vegar. Ljósm. Reykhólavefurinn.

Flutningabíll fulllestaður lambahornum valt í Gufufirði

Flutningabíll valt á föstudag í Gufufirði, innst á Hofsstaðahlíð. Óhappið varð þegar flutningabíllinn var að mæta minni bíl. Vegurinn er mjór þar sem óhappið varð, en smávegis snjórastir í köntunum gerðu það að verkum að vegurinn virtist breiðari en hann raunverulega er. Á Reykhólavefnum er greint frá því að á þessum kafla sé vegurinn innan við sex metra breiður. Flutningabíllinn var með fullfermi af lambahornum, sem verið var að fara með til vinnslu á Tálknafirði í gæludýrafóður. Upphaflega stóð til að reyna að ná bílnum upp á veginn með farminum, en það reyndist ekki hægt. „Því verður að tæma vagninn á staðnum, en gæta þarf ítrustu varúðar vegna smithættu. Hornin flokkast sem sláturafurðir og eru hvaðanæva af landinu, en hér er hreint svæði og laust við búfársjúkdóma, eins og riðu,“ segir á Reykhólavefnum. Þar segir enn fremur að þetta sé annar flutningabíllinn sem veltur á þessum vegarkafla frá áramótum, milli slitlagsenda sunnan við Skálanes og að Gufudal. „Á síðasta ári fóru ellefu bílar út af á þessum kafla, sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í þessum óhöppum en eignatjón var mikið.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira