Skrifaði starfsfólki Umhverfisstofnunar opið bréf vegna loftmengunar

Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi á Kúludalsá við Hvalfjörð sendi í gær opið bréf til forstjóra og starfsfólks Umhverfisstofnunar vegna útsleppis mengandi efna frá Grundartanga. „Þegar ég kom út á hlaðið á Kúludalsá í morgun, sunnudaginn 17. febrúar 2019, fann ég í lofti svo mikinn fnyk að ekki var hægt að anda með eðlilegum hætti. Ég forðaði mér þangað sem förinni var heitið þ.e. í hesthúsið. Klukkutíma síðar þegar ég hafði lokið við að sinna hestunum var fnykurinn mun minni, en hann var samt til staðar. Nokkur hross eru á útigangi og fá þennan viðbjóð beint í lungun og út í blóðið. Sjá má af loftgæðamæli við Gröf að mikið útsleppi mengandi efna hefur átt sér stað í nótt og undir morgun,“ skrifar Ragnheiður.

Þá segir hún það algjörlega óviðunandi að útsleppi sem þetta skuli eiga sér stað. „Það er einfaldlega verið að spara fé á þann ömurlega hátt að tæma hreinsibúnað út í andrúmsloftið. Útsleppin eru endurtekin af fullkomnu kæruleysi og óvirðingu við menn og dýr, þrátt fyrir ótal beiðnir um að þessu verði hætt. Öll iðjuverin á Grundartanga koma til greina sem sökudólgar.

Það eru mannréttindi að fá að anda að sér hreinu lofti. Stundum mengast loft af óviðráðanlegum ástæðum, en í þessu tilfelli og fjölmörgum öðrum hvað Grundartanga snertir, er mengunin af manna völdum og nú verður að stöðva þennan gjörning.

Það bætir ekkert þó eftirlitsaðilann bendi á að útsleppið sé innan leyfilegs ársmeðaltals. Sú aðferð við að meta mengun er fáránleg. Umhverfisstofnun hefur lagt blessun yfir þessa aðferð í starfsleyfum fyrir iðjuverin og talar um hana eins og hún sé sé meitluð í stein. Meðaltöl segja ekkert um raunverulegar aðstæður eins og það sem gerðist í nótt og í morgun. Mengunartopparnir eru hættulegir hérna við Hvalfjörð, rétt eins og annarsstaðar þar sem eiturefni eru notuð.“

Að lokum beinir Ragnheiður orðum sínum til Kristínar Lindu Árnadóttur forstjóra og samstarfsfólks Umhverfisstofnunar. „Þið eruð á launum hjá þjóðinni til að verja okkur fyrir mengun. Ástandið er löngu orðið nógu slæmt til að þið takið til hendinni og það er ykkar verk! Þið fáið greitt fyrir slíka vinnu á hverjum einasta degi,“ skrifar Ragnheiður Þorgrímsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira