Foreldrar fyrsta barnsins, drengs sem fæddist 2. janúar síðastliðinn, fengu afhentan fyrsta Barnapakkann. Hér eru þau ásamt fulltrúum Borgarbyggðar, Öldunnar og ungbarnaeftirlits HVE í Borgarnesi. Fremst eru sitjandi; Gunnlaugur sveitarstjóri, Arnór Orri Einarsson og Ástrún Kolbeinsdóttir sem heldur á óskírðum Arnórssyni.

Borgarbyggð býður yngstu íbúana velkomna með Barnapakka

Sveitarfélagið Borgarbyggð, í samstarfi við fyrirtæki og félagasamtök í héraði, hefur ákveðið að afhenda hér eftir foreldrum nýbura svokallaða Barnapakka. „Það er fagnaðarefni í hverju samfélagi þegar nýr einstaklingur fæðist í heiminn. Hver fæðing og hver nýr einstaklingur er kraftaverk út af fyrir sig enda þótt fæðing þyki ekki síður sjálfsagður hluti af tilverunni eins og svo margt annað,“ segir Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri. Í morgun var fyrstu foreldrunum afhentur pakki við athöfn á Heilsugæslustöðinni í Borgarnesi. Þar var þá drengur, sem fæddist 2. janúar síðastliðinn, nýbúinn að fara í gegnum sex vikna skoðun ásamt foreldrum sínum, þeim Ástrúnu Kolbeinsdóttur og Arnóri Orra Einarssyni. Hér eftir fá allir nýbakaðir foreldrar í Borgarbyggð slíkan glaðning afhentan á heilsugæslustöðinni.

Við þetta tilefni sagði Gunnlaugur að fyrir foreldra nýbura væri að mörgu að hyggja og því margt sem nýfætt barn þyrfti á að halda. „Því kom upp sú hugmynd að bjóða nýjan einstakling velkominn í samfélagið með smá framlagi til að létta undir með foreldrum við þessi ánægjulegu tímamót. Hugmyndinni var vel tekið og nú liggur afraksturinn fyrir,“ sagði Gunnlaugur. Sveitarfélagið fékk nokkur fyrirtæki og félagasamtök með sér í lið við að fylla á Barnapakka sem foreldrar fá afhenta. Barnapakka Borgarbyggðar styrkja Kaupfélag Borgfirðinga, Samkaup / Nettó, Lyfja, Borgarbyggð og Heldri borgarar (prjónavarningur) auk Öldunnar, verndaðs vinnustaðar í Brákarey, sem saumar pokana utan um barnapakkanna, framleiðir hluti í þá og hefur umsjón með því að pökkunum sé komið til heilsugæslunnar þar sem þeir verða afhentir foreldrum.

„Vonandi nær þessi hugmynd að flytja foreldrum nýfædds barns þann hug sem að baki gjöfinni liggur. Þá er tilganginum náð,“ sagði Gunnlaugur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira