Kornakur. Naomi Bos við rannsóknir á vettvangi.

Ver meistararitgerð við LbhÍ á morgun

Á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar klukkan 14:30 mun Naomi Bos verja meistararitgerð sína í búvísindum við Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin nefnist „Flýtiþættir í norrænum bygglínum (Hordeum vulgara L.)“ og var „meginmarkmið rannsóknarinnar að lýsa svipfari bygglínanna og beita tengslagreiningu til að finna erfðamörk sem hafa áhrif á vöxt og þroska,“ segir í ágripi ritgerðarinnar. Athöfnin fer fram í salnum Borg í Ásgarði, Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og eru allir velkomnir.

Hér að neðan má lesa ágrip úr ritgerðinni

Bygg (Hordeum vulgare L.) er fjórða mest ræktaða kornjurtin í heiminum og sú korntegund sem þrífst við fjölbreyttustu umhverfisaðstæður og ræktunarskilyrði. Ræktun byggs á norðlægum slóðum byggir á plöntuefniviði sem kynbættur hefur verið til að þroska korn við tiltölulega lágt hitastig og stutt vaxtartímabil ásamt því að þola hvassviðri. Aukin þekking á erfðafræðilegum þáttum byggs sem stjórna blómgun, þroska og stöngulhæð er því afskaplega verðmæt fyrir ræktun byggs á jaðarsvæðum. Efniviður þessarar rannsóknar eru 178 arfhreinar bygglínur. Þessar línur eru afkomendur víxlanna sem gerðar voru milli tveggja óskyldra byggyrkja: Golf og Tampar. Línunum var skipt í tvo hópa á grundvelli þeirrar aðferðafræði sem notuð var til að ná fram arfhreinum einstaklingum: DH (e. Double haploid) og SSD (e. Single seed descent). Allar línurnar voru svipgerðagreindar í akri og arfgerðagreindar á iSelect 9K barley genaflögu. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að lýsa svipfari bygglínanna og beita tengslagreiningu til að finna erfðamörk sem hafa áhrif á vöxt og þroska. Svipgerðargögnin voru greind tölfræðilega og arfgerðargögnin nýtt til að kanna stofngerð. Ásamt því var hnignun tengslaójafnvægis mæld. Erfðamengis-tengslagreiningu og tengslagreiningu var beitt til að meta tengsl erfabreytileika við svipgerðarbreytileika byggs. Mikill breytileiki reyndist vera í blómgunartíma, þroska og stráhæð á milli einstakara bygglína. Ræktunarár, uppruni línu (DH eða SSD) og axgerð voru allt þættir sem höfðu marktæk áhrif á breytileika í mældum svipgerðum. Stofngerðargreining leiddi í ljós að bygglínurnar skiptust í tvo hópa. Hópaskiptingin fylgdi uppruna línanna, þar sem bygglínur með DH uppruna aðskildust frá línum með SSD uppruna. Örlítil skipting reyndist vera á milli sexraða og tveggjaraða lína. Arfgerðagreiningar leiddu enn fremur í ljós að hnignun tengslaójafnvægis reyndist vera hraðari í línum með SSD uppruna heldur en í DH línum. Hnignun tengslaójafnvægis var jafnframt mjög breytileg milli litninga. Erfðabreytileiki innan litningasvæðis staðsettu nálægt þráðhafti á litningi 2H hafði marktæk áhrif á blómgun. Líklegt er að þessi áhrif stafi af breytileika innan HvCEN. Önnur möguleg gen sem gætu hafa haft áhrif á blómgun eru talin vera HvELF3, HvFT1 og meðlimir CONSTANS próteinfjölskyldunnar. Líkleg gen sem höfðu áhrif á þroska en ekki blómgun voru Ppd-H1, HvCry1b og HvCO6. Raðgreining gena innan litningasvæða, sem tengslagreining sýndi fram á tengsl erfða- og svipgerðarbreytileika, t.d. HvCEN, er líkleg til að gefa frekari upplýsingar um erfðafræðilega stjórnun blómgunar í byggi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Flugslys í Svefneyjum

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim... Lesa meira