Kvikmyndin Dagur í lífi Palla Egils sem Gunnhildur Lind Hansdóttir tók, verður sýnd á opnunarkvöldinu á morgun, fimmtudag. Ljósm. glh.

Borgarnes Film Freaks hefst á morgun

Kvikmyndahátíðin Borgarnes Film Freaks hefst í Borgarnesi á morgun, fimmtudaginn 24. janúar og stendur yfir í þrjá daga. Opnunarkvöldið hefst kl. 18:00 á Sögulofti Landnámsseturs Íslands. Á föstudag og laugardag verður sýnt í Félagsmiðstöðinni Óðali og þá hefjast sýningar kl. 19:00. Allt í allt verða sýndar 29 myndir frá 16 löndum. „Þessa þrjá daga gefst gestum tækifæri á að sjá ferskar og áhugaverðar kvikmyndir, heimildarmyndir og stuttmyndir sem koma hvaðanæva að úr heiminum. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá þar sem hvert sýningarkvöld hefur sitt þema. Leikstjórar kvikmynda ræða um verkin sín og gestir fá að spyrja þá um allt milli himins og jarðar,“ segir í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar.

Vert er að vekja sérstaka athygli á kvikmynd Gunnhildar Lind Hansdóttur, Dagur í lífi Palla Egils. „Ég hvet alla Borgnesinga og þá sem þekkja til Palla sérstaklega til að kíkja á hana í Landnámssetrinu að kvöldi fimmtudags,“ sagði Halldór Óli Gunnarsson, einn af skipuleggjendum hátíðarinnar, í Skessuhorni í síðustu viku.

Hátíðin nýtur styrks úr Uppbyggingarsjóði Vesturlands og aðgangur að öllum sýningum Borgarnes Film Freaks er ókeypis. Þó er rétt að taka fram að börn 12 ára og yngri þurfa að mæta í fylgd með forráðamönnum á hryllingsmyndakvöldið á föstudaginn.

Nánari dagskrá má sjá á Facebook síðu Borgarnes Film Freaks og vefsíðunni www.fluxusdesigntribe.com.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.