Hámarkshraði tekinn niður á einbreiðum brúm

Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða í 50 km/klst. við allar einbreiðar brýr á þjóðvegum þar sem umferð er meiri en 300 bílar á dag að jafnaði alla daga ársins. Um er að ræða um 75 einbreiðar brýr, um helmingur þeirra á hringveginum. Þá verður viðvörunarskiltum breytt og einnig bætt við undirmerki á ensku á viðvörunarskiltum. Kostnaður við merkingar er áætlaður um 70-80 milljónir króna.

„Vegagerðin hefur einnig ákveðið að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli og breyta honum til lækkunar reynist þess þörf eða fjölga merkingum um leiðbeinandi hraða. Þá verður gerð úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og tengivegum. Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Eftir sem áður gildir sú gullvæga regla að ávallt ber að haga akstri eftir aðstæðum.

Heildarfjöldi brúa á þeim þjóðvegum sem teljast til stofn- og tengivega er 892. Af þessum brúm teljast 423 vera einbreiðar, þ.e. fimm metrar að breidd eða mjórri. „Mikil áhersla er lögð á að fækka einbreiðum brúm en ljóst er að langan tíma mun taka að útrýma þeim. Á undanförnum þremur árum hefur staðið yfir átak varðandi bættar merkingar við einbreiðar brýr, sem m.a. felst í uppsetningu blikkljósa, og hafa nú allar brýr á hringvegi verið merktar á sambærilegan hátt og sama gildir um nokkrar brýr utan hringvegar.

Á fundi um vegamál í Reykhólasveit í síðustu viku sagði Guðmundur Valur Guðmundsson forstöðumaður hönnunarsviðs Vegagerðarinnar að áætlaður kostnaður við að breikka einbreiða brú og gera tvölfalda væri um fimm milljón krónur metrinn. Þannig kostaði um 100 milljónir að tvöfalda 20 metra langa brú. Af því leiðir að ár og dagar munu líða áður en einbreiðum brúm hér á landi verður útrýmt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Brákarhátíð hafin

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta... Lesa meira