Systkinin Runólfur, Guðmundur Smári, Kristján, Páll, María og Unnsteinn Guðmundsbörn tóku við viðurkenningunni, fyrir hönd eigenda G.Run, sem Vestlendingar ársins úr hendi Kristjáns Gauta Karlssonar blaðamanns Skessuhorns. Þau eru eigendur fyrirtækisins ásamt Inga Þór bróður sínum og mökum þeirra auk Móses Geirmundssonar frænda þeirra. Ljósm. tfk.

Eigendur Guðmundar Runólfssonar hf. eru Vestlendingar ársins 2018

Val á Vestlendingi ársins stóð yfir í desember en þetta er í tuttugasta skipti sem Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands, stendur fyrir því. Auglýst var eftir tilnefningum frá almenningi auk þess ritstjórn leitaði álits fjölmargra valinkunnra íbúa í landshlutanum, því betur sjá augu en auga í þessu sem mörgu öðru. Þessum gögnum var síðan safnað saman og niðurstaðan var sú að fjórir einstaklingar, hjón eða hópar sköruðu framúr og fengu langflestar tilnefningar. Þetta voru; eigendur Guðmundar Runólfssonar hf. í Grundarfirði, Bára Tómasdóttir og fjölskylda í Hvalfjarðarsveit, Eiríkur J Ingólfsson byggingaverktaki í Borgarnesi og Hjónin Guðrún Agnes Sveinsdóttir og Ingólfur Árnason eigendur Skagans 3X og Þorgeirs & Ellerts á Akranesi á Akranesi.

Vestlendingar ársins 2018 eru eigendur útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Guðmundur Runólfsson hf. í Grundarfirði. Eigendur fyrirtækisins eru sjö systkini Guðmundarbörn og makar, auk frænda þeirra Mósesar Geirmundssonar. Þessi hópur stendur þétt saman að rekstri fyrirtækisins og á liðnu ári var af miklum krafti ráðist í uppbyggingu fullkomnustu bolfisksvinnslu í landinu. Fjárfesting upp á vel á annan milljarð króna, áhersla lögð á íslenskt hugvit og mannafla og markmiðið að treysta til frambúðar stoðir fiskvinnslu í heimabyggð. Nýja vinnslan verður opnuð síðar í þessum mánuði.

Skessuhorn óskar eigendum GRun hf. til hamingju. Ítarlega er rætt við þá í blaðinu sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir