Þrjú hálkuslys í umdæminu á liðnum dögum

Fimm minniháttar umferðarhöpp urðu í umdæmi Lögreglunnar á Vesturland í liðinni viku og þrjú hálkuslys. Bílvelta varð á Snæfellsnesvegi rétt vestan við Borgarnes aðfararnótt mánudags. Bíllinn fór utan vegar og hafnaði á hvolfi úti í skurði. Hálka var á veginum þegar slysið varð. Tveir voru í bílnum en sluppu þeir báðir með minniháttar meiðsli. Nokkurn tíma tók að þvinga upp bílhurð til að ná mönnunum út. Ökumaður missti bíl stjórn á bíl sínum vegna hálku á Vesturlandsvegi við Fjárhúsaás á sunnudag með þeim afleiðingum af bíllinn fór út af veginum. Ökumaðurinn slapp með minniháttar meiðsli, eymsli í hálsi og baki en varð að öðru leyti ekki meint af. Árekstur varð á Borgarfjarðarbraut við Hvítárvallaveg. Ökumaður missti stjórn á bíl sínum í hálku, bíllinn fór út af veginum og inn á hann aftur, yfir á rangan vegarhelming og hafnaði framan úr bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Allir sluppu með minniháttar meiðsli en bílarnir skemmdust mikið og þurfti að fjarlægja þá með kranabíl.

Að sögn lögreglu má rekja öll hálkuslysin til svarta íssins sem myndast gjarnan á kvöldin og næturna á þessum tíma árs. Fólk sér hann illa og áttar sig ekki á því fyrr en of seint að það ekur í hálku. Búast má við mikilli umferð dagana fyrir jól, á myrkasta tíma ársins. Vill lögregla brýna alla til að fara varlega í einu og öllu yfir hátíðirnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir