Allt endurvinnanlegt sorp er handflokkað.

Mikilvægt að vanda sig við flokkun á heimilisúrgangi

Mikil vitundavakning um umhverfisvernd hefur orðið í samfélaginu okkar síðustu ár og eru flestir orðnir meðvitaðir um að fara vel með jörðina okkar. Einn mikilvægur þáttur í því er að flokka heimilisúrganginn okkar svo hægt sé að endurvinna hann sem mest. Í daglegri neyslu fellur til mikið af úrgangi sem í flestum tilfellum mengar jörðina okkar á einn eða annan hátt. Við getum minnkað þessa mengun svo um munar með því að bæði hugsa vel út í neyslumynstur okkar og með því að flokka endurvinnsluefnin sérstaklega og koma þeim í endurvinnsluferli. Blaðamaður Skessuhorns kíkti við á skrifstofu Gámaþjónustu Vesturlands á Akranesi og ræddi við þær Lilju Þorsteinsdóttur rekstrarstjóra og Líf Lárusdóttur markaðsstjóra Gámaþjónustunnar hf. um mikilvægi endurvinnslu og hvað verður um endurvinnsluefnin.

Endurvinnsluefni allt handflokkað

Í ágúst síðastliðnum var eitt ár frá því Gámaþjónusta Vesturlands tók við sorphirðu á Akranesi en fyrirtækið sinnir einnig sorphirðu í Snæfellsbæ, Eyja- og Miklaholtshreppi, Búðardal, á Reykhólum og víðar um landið. „Við sækjum úrganginn hér á Akranesi á tvískiptum bíl þar sem við setjum almennan úrgang í annað hólfið og endurvinnanlegt efni í hitt hólfið. Bæjarfélögin ákveða sjálf hversu oft eigi að tæma tunnurnar og svo er verkið boðið út.  Það er mikilvægt að horft sé vandlega í umhverfisárhrif þegar sorphirða er boðin út og þess sé gætt að sem  mest hagræðing sé af akstri eftir sorpi og endurvinnsluefni. Það er t.d. mikil óhagræðing að aka eftir almennu sorpi á tvískiptum bíl aðra hvora viku og þurfa svo að fara sérferð þá þriðju segir Lilja.

En hvað verður um endurvinnanlega efnið? „Við förum með það allt í móttökustöðina okkar í Berghellu í Hafnarfirði þar sem það er flokkað,“ svarar Líf. „Núna í október tókum við í notkun nýja flokkunarlínu sem endurvinnsluefnið fer á, flokkunarlínan þeytir létta efninu, eins og pappanum, upp en þyngri hlutir eins og málmar falla niður. Þetta auðveldar okkur töluvert flokkunina en það er þó alltaf allt yfirfarið í höndunum að lokum,“ bætir hún við.

Biðja fólk um að setja ekki gler í endurvinnslutunnuna

Gámaþjónusta Vesturlands vill koma því til skila til íbúa að gæta þess vel hvað fer í endurvinnslutunnurnar því stundum geti það beinlínis verið skaðlegt þeim sem vinna við flokkun. „Eitt af því sem má alls ekki fara í endurvinnslutunnurnar er gler. Það er fólk sem sér um alla flokkun og við viljum forðast að okkar starfsmenn séu að skera sig í vinnunni, gler í endurvinnslutunnu getur því skapað mikla hættu,“ segir Líf og bætir því við að fyrir þá sem vilja flokka gler megi koma með það og setja í sérstakan gám við starfsstöðvar Gámaþjónustunnar. Annars kemur gler með almennum úrgangi. „Gler er náttúrlegt efni sem getur nýst sem millilag með sorpinu sem er grafið í Fíflholtum. Gleri sem safnað er sér getur einnig nýst sem uppfyllingarefni við vegaframkvæmdir en okkur vantar tilfinnanlega markvissari farveg fyrir gler þar sem það er töluverður kostnaður fyrir bæjarfélögin sem fylgir því að urða og flytja þetta efni,“ segir Lilja. „Best er þó að endurnota glerkrukkur sem lengst  og hvet ég alla til að huga að því í stað þess að farga þeim,“ bætir hún við.

Mikilvægt að skola

„Því miður lendum við líka stundum í því að fólk setji matarleifar eða annan óendurvinnanlegan úrgang í endurvinnslutunnuna en það smitar út frá sér og skemmir jafnvel heilu farmana,“ segir Líf og Lilja tekur undir og bætir því við að hún hafi til dæmis séð bleiur koma úr endurvinnslutunnunum. „Við förum ekkert fram á að fólk sé að skrúbba efnin áður en það fer í tunnuna en það er gott að skola það vel. Ekki bara vegna þess að annars gæti það skemmt út frá sér heldur líka vegna þess að þetta ferli getur tekið einhvern tíma og þegar úrgangurinn kemur á færibandið hjá þeim sem flokka, getur verið komin mygla í hann. Myglan verður svo að dufti sem skapar óheilbrigt vinnuumhverfi fyrir starfsfólk okkar,“ segir Líf. „Svo bara af virðingu við fólkið sem vinnur við að flokka hjá okkur vil ég biðla til allra að hugsa vel um það sem fer í endurvinnslutunnuna. Í endurvinnslutunnuna á bara að fara efni sem hæft er í endurvinnslu, annað fer í almennan úrgang. Við vonum að allir íbúar hér á Vesturlandi vilji vinna að þessu markmiði með okkur að auka endurvinnslu og minnka þar með úrgang til urðunar. Það gerum við með því að flokka vel og nýta þær lausnir til flokkunar sem eru í boði,“ bætir Lilja við.

Allar umbúðir

En hvað er það sem á að fara í endurvinnslutunnuna? „Einfalda viðmiðið eru umbúðir. Allar umbúðir, hvort sem þær eru úr plasti, pappa eða málmi. En einnig eiga líka öll dagblöð og önnur blöð og pappír heima í endurvinnslutunnunni,“ útskýrir Lilja og bætir því við að þegar fólk kaupir vörur í umbúðum sé búið að leggja á þær ákveðinn toll, svokallað úrvinnslugjald. Úrvinnslusjóður sér svo um ráðstöfun þessa gjalds, með það að markmiði að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnýtingu úrgangs meðal annars með því að senda það úr landi þar sem það er notað til endurvinnslu en einnig til orkunýtingar. Úrvinnslugjaldið virkar því sem hvati á innflutningsfyrirtækin til að minnka notkun umbúða.

„En ég veit að það er oft ruglingslegt fyrir fólk hvað má að fara í endurvinnslutunnuna. Ef við tökum sem dæmi snjóþotur. Þær geta verið úr 100% góðu endurvinnanlegu efni en þar sem þær bera ekki úrvinnslugjald og hér á landi er engin endurvinnsla á slíku efni er því eina leiðin sem við höfum að koma þeim í urðun,“ segir Lilja og bætir við að einnig sé mjög algengt að fólk setji t.d. leikföng, Legókubba, tannbursta, uppþvottabursta, penna og fleira sem séu ekki efni sem hægt er að koma til endurvinnslu eins og staðan er í dag.

Núna þegar líður að jólunum vilja þær benda á að álbikarinn utan af sprittkertunum má fara í endurvinnslutunnuna. „Þessir bikarar eru búnir til úr áli sem við viljum gjarnan koma í endurvinnslu. Einnig má setja gjafapappírinn í endurvinnslutunnuna en þó ekki böndin utan af pökkunum,“ segir Líf. Hjá sumum bæjarfélögum er einnig boðið upp á moltutunnu fyrir allan lífrænan úrgang. „Moltuferlið tekur um 6-8 vikur. Við blöndum öllum lífrænum úrgangi þar sem honum er safnað saman við garðaúrgang og hrossatað í loftfyrrtum gámum, þar brotnar þetta niður og verður að efni sem kallast molta og er ákaflega góður jarðvegsbætir,“ segir Lilja. Fólk getur nálgast moltu á starfsstöðvum okkar á Akranesi og Ólafsvík yfir sumartímann.

Hagur fyrirtækisins að endurvinna

Aðspurðar hvort neytendur geti verið alveg vissir um að allt sem þeir setji í endurvinnslutunnuna fari örugglega til endurvinnslu en ekki urðun segja þær að allt nothæft endurvinnsluefni fari til endurvinnslu. „Það er tvímælalaust okkar hagur að sem mest efni fari í endurvinnslu því annars þurfum við að bera kostnað af því að urða það. Það er því fjárhagslega hagkvæmara fyrir okkur að gæta þess vel að endurvinnanlegt efni sé ekki urðað,“ segir Lilja. „En eins og við segjum þá þarf ekki nema einn aðila sem setur matarleifar í endurvinnslutunnuna sína til að skemma jafnvel heilan farm og þá er það í sumum tilvikum orðið óhæft til endurvinnslu. Það er þó algjörlega okkar vilji og metnaður að endurvinna sem mest og við reynum eftir bestu getu að bjarga öllu því sem hægt er,“ bætir Líf við.

Þegar búið er að flokka efnið er það pressað í 600 kílóa bagga sem svo eru fluttir úr landi. „Baggarnir eru svo boðnir upp erlendis á sérstökum útboðsmörkuðum fyrir þetta efni. Það er alltaf tekið fram hvert upprunalandið er og ef þú passar að vanda þig við flokkun verður þitt endurvinnsluefni eftirsóknarverðara og það er því okkar hagur að vanda til verksins og senda frá okkur eins vel flokkað efni og við getum,“ útskýrir Líf.

Huga vel að aðgengi að tunnunum

Þá segjast þær vilja koma því á framfæri við alla að gæta vel að tunnunum sínum og aðgengi að þeim. „Við erum gríðarlega heppin með starfsfólk sem vill gera sitt besta til að veita góða þjónustu. En til þess að geta veitt góða þjónustu þurfum við að biðla til fólksins að gæta aðgengis að tunnunum sínum. Í þeim tilvikum sem starfsfólk okkar kemst ekki að tunnum til dæmis vegna snjóþunga verðum þeim einfaldlega bara sleppt. Það er því mikilvægt að huga vel að þessu svo við getum unnið okkar starf, annars getum við ekki tæmt,“ segir Líf. Þá benda þær á að hjá Gámaþjónustu Vesturlands geti fólk fengið búnað til að bæði festa tunnurnar og til að festa niður lokin svo þau fjúki ekki upp. „Þessi búnaður er sérstaklega hugsaður til þess að auðvelt sé að opna tunnurnar og losa þær og þess vegna biðjum við fólk frekar að nota þennan búnað heldur en að binda tunnurnar með köðlum eða stafla þungum hlutum á lokin. Okkar starfsmenn geta ekki alltaf verið að losa stóra rembingshnúta eða að taka ofan af tunnunum þunga hluti til að geta tæmt þær. Þó svo það sé að sjálfsögðu vilji okkar starfsfólks að tæma allar tunnur,“ segir Lilja. Þessar stoðvörur fyrir tunnur má skoða og versla í netverslun Gámaþjónustunnar undir slóðinni gamar.is

„Það er öllum velkomið að hafa samband við okkur með allar þær spurningar sem kunna að vakna og við tökum alltaf glöð á móti ábendingum og ráðum um hvað mætti betur fara,“ segja þær að lokum.

Líf Lárusdóttir markaðsstjóri Gámaþjónustunnar hf. og Lilja Þorsteinsdóttir rekstrarstjóri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir