Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur nú fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir legsteinasafn í Húsafelli II. Myndin er frá mars á þessu ári.

Byggingarleyfi fyrir legsteinasafn fellt úr gildi

Síðastliðinn fimmtudag kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í kærumálum sem snerta deiliskipulag fyrir Húsafell II í Borgarfirði og veitingu byggingarleyfis fyrir listaverkahús og pakkhús á deiliskipulögðu svæði. Eigendur fasteignar á samliggjandi lóð, Gamla bæ á Húsafelli I, kærðu ákvörðun byggingafulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells II. Einnig kærðu þeir útgáfu byggingarleyfis til að reisa pakkhús á svæðinu og þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell II.

Mál þetta á sér nokkurra ára forsögu og tengist uppbyggingu safngarðs í landi Húsafells II þar sem listaverkum Páls Guðmundssonar hefur verið komið fyrir í nokkrum byggingum; uppgerðu gömlu fjósi, súrheysturni og gömlu pakkhúsi sem flutt var fyrir nokkrum árum frá Borgarnesi og komið fyrir á lóðinni. Það hús hýsir nú steinhörpusafn Páls, en fjós og turn annan hluta listaverkasafns hans. Jafnframt var sótt um og veitt byggingarleyfi fyrir nýju húsi sem byggja átti yfir steinasafn Húsfellinga, meðal annars forna legsteina sem varðveist hafa. Ítarleg frásögn af þessum áformum birtist í Skessuhorni í mars á þessu ári. Byggingarleyfi fyrir legsteinasafni var gefið út í janúar fyrir tæpum þremur árum og er húsið nú uppsteypt, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Framkvæmdir við húsið hafa hins vegar legið niðri meðan beðið var niðurstöðu úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Tveimur málum vísað frá og byggingarleyfi fellt úr gildi

Niðurstaða úrskurðarnefndar er þrískipt og tekur mið af kæruatriðum málshefjanda. Í fyrsta lagi er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingafulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli vísað frá úrskurðarnefndinni. Í annan stað er sömuleiðis vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan. Það gerir UUA á þeirri forsendu að ekki ertil gilt skipulag fyrir svæðið. Loks í þriðja lagi úrskurðar nefndin kæranda í vil. Felld er úr gildi ákvörðun byggingafulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Húsbyggjendur í góðri trú

Í reifun á málinu segir meðal annars um byggingu legsteinahúss að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir með eðlilegar væntingar til gildis umrædds deiliskipulags og byggingarleyfis, útgefnu af þar til bæru yfirvaldi. „Þær hafi staðið í um það bil ár án athugasemda kæranda þegar kæra hafi verið send nefndinni. Hafi byggingarleyfishafi því mátt vera í góðri trú um að öll tilskilin leyfi og formsatriði væru til staðar. Kunni framkvæmdir að verða unnar fyrir gíg verði kæran tekin til greina, rúmum þremur árum eftir gildistöku deiliskipulagsins og rúmu einu og hálfu ári eftir að úrskurður nefndarinnar um frávísun og synjun um endurupptöku málsins hafi legið fyrir. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina skuli úrskurðir hennar vera fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og hafi byggingarleyfishafi því eðlilega vænst þess að niðurstaða nefndarinnar væri endanleg.“ Þá segir í úrskurðarorðum nefndarinnar að hinu kærða byggingarleyfi sjái hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. „Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.“

Mál þetta er nú í ákveðinni pattstöðu. Húsbyggjendur legsteinasafns eru nú án byggingarleyfis þar sem úrskurðarnefndin hefur nú fellt það úr gildi fyrir hálfbyggt hús án byggingarleyfis og án samþykks deiliskipulags, enda má lesa úr málsreifun nefndarinnar að lögmæti þess orki tvímælis. Sömuleiðis kýs nefndin að vísa frá kæru er snýr að veitingu byggingarleyfis fyrir pakkhús.

Lesa má úrskurð nefndarinnar í heild sinni má hér

Líkar þetta

Fleiri fréttir