Svanur og Elfa við rekka af garni og lopa í Framköllunarþjónustunni.

Hætta framköllun en selja nú garn og gjafavöru

Á næsta ári fagnar Framköllunarþjónustan í Borgarnesi þrjátíu ára afmæli. Fyrstu tíu árin var starfsemin til húsa við Borgarbraut 13 en síðan á núverandi stað við við Brúartorg 4 í húsi sem stundum er kallað Bananinn og stendur beint á móti N1. Húsið byggðu þau hjón Svanur Steinarsson og Elfa Hauksdóttir. Auk Framköllunarþjónustunnar leigja þau annan enda hússins til Íslandspósts og hinn til Ljómalindar. Talsverðar breytingar hafa nýverið átt sér stað í þjónustu og vöruframboði í Framköllunarþjónustunni og útlit fyrir að það breytist meira. „Fyrirtækið var stofnað til að framkalla filmur og hefur sú starfsemi verið hryggjarstykkið í þessu hjá okkur alla tíð. Eftir að stafræna tæknin ruddi sér til rúms hefur smám saman dregið úr framköllun á hefðbundnum filmum og nú er útlit fyrir að við hættum henni um áramótin. Það einfaldlega borgar sig ekki að gangsetja vélina og reka hana fyrir örfáar filmur á viku. Við erum hins vegar áfram að prenta út og stækka myndir, bæði af eldri filmum sem og stafrænar myndir. Erum að setja þær á blindramma, álplötur og pappír. Þannig höldum við áfram myndvinnslu þótt framköllunin detti út,“ segir Svanur.

Í húsnæði þeirra var þar til í haust rekið þjónustuumboð fyrir tryggingafélagið VÍS, en skrifstofunni var lokað 1. nóvember. „Þannig vildi til að sama dag og VÍS hætti var garnbúðinni sem hér var í Borgarnesi einnig lokað. Við vissum að það var ekki vegna þess að garn væri ekki að seljast og gripum því tækifærið sem myndaðist og höfum nú komið okkur upp heilmiklum lager af garni og lopa í sama rými og VÍS hafði áður. Okkur sýnist að þessi viðbót í flóruna komi ágætlega út,“ segir Elfa. Samhliða því hafa þau verið að bæta við úrval í gjafavöru en ekki síst vörum sem ferðafólk er áhugasamt um.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir