Grundfirðingar reiðir vegna læknaskorts

„Í dag sem svo oft áður var læknislaust í Grundarfirðinum. Mér skilst að læknir sem er í Ólafsvík hafi forfallast og læknir sem hér átti að vera hafi því verið fluttur þangað. Mér finnst þetta algjörlega óásættanlegt,“ skrifar íbúi í Grundarfirði á Facebook. „Í firðinum okkar eru miklar framkvæmdir og t.d. hjá G.Run eru um 40 manns alla daga vikunnar vinnandi við nýbyggingu; í stigum, lyftum, við rafmagn með þunga hluti og fleira. Það er ótrúlegt að tryggingarfélagið mitt, bæjarstjórn og við skulum sætta okkur við þetta,“ skrifar hann. Bent er á að á mánudaginn hafi orðið minniháttar slys í grunnskólanum, maður hafði sagað í fingur sem kostaði hann sjúkrabíl á Akranes þar sem sauma þurfti 20 spor. „Erum við ekki að skaffa nóg til ríkis sem réttlætir þetta, eða erum við bara annars flokks,“ spyr hann.

Fleiri taka undir í umræðunni á samskiptamiðlum. Meðal annars kona sem segist vona að Grundfirðingar sem þurfa á læknisaðstoð að halda þessa vikuna sendi póst á hjúkrunarforstjórann og kvarti. „Það er óboðlegt að hér sé ekki læknir þessa vikuna. Ég er búin að senda þeim póst og vona svo innilega að fleiri geri það líka.“

Á haustþingi SSV í september var rætt um læknaskort á Vesturlandi. Jóhanna Fjóla Jóhannesdóttir forstjóri HVE sagði þá að það væri áhyggjuefni að heilsugæslulækna með sérfræðimenntun í heimilislækningum er erfitt að finna og fá til starfa. „Læknisþjónusta er auðvitað öllum ofarlega í huga. Heilsugæslan er ekki að fara til baka í kerfi þar sem einn læknir á hverjum stað er á vakt allan sólarhringinn. Það er ekki fýsilegt fyrir þá sem starfa í þessu. Þess vegna þurfum við og erum að skoða hvað við getum gert. Auðvitað er búin að vera óánægja úti á Snæfellsnesi og ég óska eftir að við förum í samtal sérstaklega, bíðum ekki eftir smáatriðum í velferðarstefnunni heldur förum í samtal þar,“ sagði Jóhanna Fjóla á haustþingi SSV í september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir