Frá Grundartanga. Ljósm. Magnús Ólafsson.

Tuttugu sagt upp hjá Norðuráli

Í morgun var tuttugu starfsmönnum Norðuráls sagt upp störfum. Að sögn Sólveigar Kr. Bergmann upplýsingafulltrúa fyrirtækisins ganga uppsagnirnar þvert á svið og deildir fyrirtækisins. Flestir sem missa vinnu sína tilheyra stoðsviðum og verða störf þeirra lögð niður auk þess sem gerðar verða skipulagsbreytingar. Ákvörðun um uppsagnir nú var, að sögn Sólveigar, tekin í ljósi rekstrarumhverfis fyrirtækisins sem kallar á hagræðingu í rekstri. „Á undanförnum mánuðum hefur þróun á framleiðslukostnaði verið okkur óhagstæð og innlendur kostnaður hefur hækkað verulega á undanförnum árum,“ segir Sólveig. Ekki er um hópuppsögn að ræða, en hún er skilgreind sem slík ef þrjátíu eða fleiri er sagt upp hjá fyrirtækjum sem hafa þrjú hundruð starfsmenn eða fleiri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir