Á myndinni eru þau Madeleine Malmsten og Leifur B. Björnsson með nýja búnaðinn.

Tæknin virkjuð við þjálfun hrossa

Með hjálp nútímatækni geta knapar nú lært um frammistöðu sína á reiðvellinum og skipulagt þjálfun í samræmi við hana, en íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Locatify hefur í fyrsta sinn sett upp slíkan staðsetningarbúnað í reiðhöll í Strömsholm í Svíþjóð, í samvinnu við Ridsportens Innovationer. Þetta nýja kerfi sýnir hversu hratt er riðið og hvernig hesturinn hefur farið um reiðvöllinn, en með því að fá þessar upplýsingar er hægt að skoða hvað megi betur fara til þess að bæta þjálfun og minnka það álag sem hesturinn verður fyrir. Hægt er að sýna hárnákvæma reiðleið hvers knapa á skjá eftir þjálfun eða keppni og bera saman niðurstöðurnar.

Tæknin sem notuð er nefnist á ensku Ultra WideBand (UWB) og gefur á sekúndubroti upplýsingar um staðsetningu með 30 cm fráviki. Leifur Björn Björnsson frumkvöðull setti búnaðinn upp í reiðhöllinni í Strömsholm  að beiðni fyrirtækis sem vinnur að nýjungum í hestaíþróttum. Locatify hefur auk þess þróað vefkerfi þar sem hægt er að útbúa leiðsagnir, ratleiki og gagnvirkt upplýsingaefni, sem er gefið er út í sérmerktum smáforritum í snjallbúnaði, og virkjast sjálfkrafa á réttum stöðum. Til að staðsetja notanda utanhúss er GPS notað en innanhúss er notast við blátannasenda eða UWB. Hingað til hefur UWB-tæknin verið sett upp á söfnum og sýningarsvæðum en að setja þessa tækni uppá skeiðvelli er nýbreytni. Þess má geta að sambærilegur búnaður er í Snorrastofu í Reykholti, eins og greint var m.a. frá í þættinum Landanum á RUV.

Líkar þetta

Fleiri fréttir