Vinnsla á ýsu á Akranesi í sumar. Ljósm. kgk.

Ísfiskur byrjar vinnslu að nýju á morgun

Ísfiskur byrjar að nýju bolfisksvinnslu á Akranesi á morgun, fimmtudaginn 1. nóvember, eftir hlé frá því í lok júlí í sumar. Unnið hefur verið að ýmsum breytingum í húsnæði fyrirtækisins við Bárugötu 8-10 og þá hefur verið skrifað undir sölusamning á húsnæði fyrirtækisins við Hafnarbraut í Kópavogi. Sem kunnugt er keypti Ísfiskur bolfiskvinnsluhús HB Granda á Akranesi síðastliðið haust, auk hluta vinnslubúnaðar. Vinnsla Ísfisks hófst síðan á Akranesi um miðjan febrúar á þessu ári og var unnið í húsinu út júlí.

Að sögn Alberts Svavarssonar framkvæmdastjóra Ísfisks tóku breytingar á húsinu heldur lengri tíma en áætlað var, en nú er allt til reiðu að hefja vinnslu á ýsu og þorski í húsinu. „Við reiknum með að um 50 manns muni starfa við vinnsluna á Akranesi og að verulegur hluti þeirra sem störfuðu hjá okkur í Kópavogi og á Akranesi í sumar komi til starfa hjá okkur að nýju. Við héldum fund með starfsfólki í síðustu viku og aftur á morgun [í dag, innsk. blm.] og að vinnslan hefjist á fimmtudagsmorgun með hefðbundnum hætti,“ segir Albert í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir