Svipmynd frá heimsókn FKA Vesturland í Landnámssetrið í Borgarnesi sl. vor.

Frá Félagi kvenna í atvinnulífinu á Vesturlandi

Síðastliðið vor var stofnuð deild innan Félags kvenna í atvinnulífinu á Vesturlandi. Stofn- og kynningarfundur var haldinn í Stykkishólmi í apríl og í maí var haldinn fyrsti félagsfundurinn í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að spennandi viðburðir eru framundan hjá konum í atvinnulífi á Vesturlandi.

„Vetrarstarfið er komið á fullt og verður blásið til fyrsta viðburðar 10. nóvember næstkomandi á Akranesi. Aðventufundur verður haldinn á Hellissandi og drög að dagskrá ársins 2019 eru í vinnslu. Starfssvæði félagsins nær frá Akranesi/Hvalfirði um Borgarbyggð, Snæfellsnes og inn í Dali. Viðburðir verða haldnir á öllu svæðinu.“ Um 40 konur eru skráðar í FKA Vesturland og fjölgar stöðugt. „Við það að ganga í félagið býðst margskonar fræðsla fyrir konur í atvinnulífinu en FKA miðlar ýmsum fundum yfir netið auk þess sem allar FKA konur, hvar á landinu sem þær eru, eru velkomnar á alla viðburði félagsins og landsdeilda þess. FKA-Vesturland er þannig kjörinn vettvangur til að efla tengslanet og kynnast konum. Konur á Vesturlandi sem reka fyrirtæki, eru eigendur, leiðtogar eða stjórnendur eru velkomnar í FKA-Vesturland.“

Fyrsti viðburður vetrarins er heimsókn á Akranes laugardaginn 10. nóvember nk. „Atvinnulíf blómstrar á Akranesi og þar var nýlega stofnaður félagsskapurinn Jókur sem konur á Skaganum halda úti. Auk þess að vera félagskonur í Jókum eru margar þeirra einnig félagskonur í FKA Vesturland. Jókur hafa undirbúið spennandi dag á Akranesi fyrir konur í atvinnulífinu. Dagskráin hefst á Akranesi klukkan 14:00 og verður boðið upp á rútuferðir frá Snæfellsnesi ef næg þátttaka verður.

Nokkrar Jókur munu kynna fyrirtæki sín og byrjum við á jólamarkaði á tjaldstæðinu á Akranesi, heimsækjum Ritara ehf, þar sem meðal annars verður boðið upp á hugvekju um núvitund. Kíkjum í Antik, gamla muni og allskonar, heimsækjum vinnustofur og að lokum verður kíkt við á Café Kaju sem er kaffihús með lífrænar vörur á Akranesi.“

Skráning fer fram á viðburði á fésbókarsíðu hjá Jókum og FKA Vesturland og eru konur beðnar að skrá sig fyrir 5. nóvember.

Hlökkum til að sjá sem flestar FKA konur og Jókur þar sem við fáum tækifæri til að kynnast og deila reynslu af stjórnun og fyrirtækjarekstri.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir