Suðuvinna í gangi. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni/ þit.

Starfsævi Íslendinga sú lengsta í Evrópu

Vinnuvika á Íslandi er almennt lengri en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Sem dæmi var vinnuvikan á Íslandi sú næstlengsta í Evrópu á síðasta ári og um fimm tímum lengri en á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í efnahagsyfirliti VR. „Það sem er hins vegar minna fjallað um er hvað hver einstaklingur má búast við að verja mörgum árum ævi sinnar í vinnu. Flestir Íslendingar byrja að vinna á sumrin sem unglingar og margir vinna með skóla. Þá er einnig þekkt að Íslendingar halda margir áfram að vinna eftir að taka lífeyris hefst,“ segir í efnahagsyfirlitinu.  Meira en þriðjungur ellilífeyrisþega á Íslandi er enn starfandi á vinnumarkaði, samkvæmt tölum Hagstofu Evrópusambandsins. Tæplega helmingur þeirra segist vinna áfram til að hafa nægar tekjur en 40% vegna ánægju í starfi. „Þetta þýðir að hvergi í Evrópu vinnur fólk jafn stóran hluta ævi sinnar og á Íslandi.“

Karlmenn eru þannig 10,5 árum lengur í vinnu að meðaltali en kynbræður þeirra í löndum Evrópusambandsins. Starfsævi íslenskra karla er jafnframt um átta árum lengri en karla á hinum Norðurlöndunum. Íslenskar konur eru tæpum tólf árum lengur á vinnumarkaði en konur í Evrópusambandslöndum og tæplega sjö árum lengur en kynsystur þeirra á hinum Norðurlöndunum. „Vænt starfsævi karla er 48,8 ár. Þá vekur það athygli að íslenskar konur eyða fleiri árum ævi sinnar í vinnu, eða 45,2 árum, en þeir karlar sem vinna lengst að íslenskum karlmönnum undanskildum. Karlar frá Sviss eru á vinnumarkaði 44,9 ár að meðaltali og raðast beint á eftir íslenskum körlum , og á eftir íslenskum konum,“ segir í efnahagsyfirliti VR.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir