Skýrsla um áhrif veiðigjalda í NV kjördæmi

Fjórðungssamband Vestfirðinga, SSNV og Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi réðu í sumar Deliotte til að vinna skýrslu um áhrif veiðigjalda í landshlutanum. Borin eru saman fiskveiðiárin 2016 og 2017. Í skýrslunni, sem nýverið kom út, kemur skýrt fram hversu mikil áhrif veiðigjöld hafa á fyrirtæki í kjördæminu og sennilega eru áhrif þeirra mest á Snæfellsnesi. Greiningin náði til stærstu fyrirtækja í bolfiskvinnslu með lögheimili í póstnúmerunum 300 til og með 570. Samanstendur hún af félögum sem greiddu 81,1% af veiðigjöldum á þessu svæði fiskveiðiárið 2017/18. Sjávarútvegsfyrirtæki í Norðvesturkjördæmi greiddu 2,5 milljarða króna í veiðigjöld fyrir fiskveiðiárið 2017/18, en á landinu öllu voru veiðigjöld 11,2 milljarðar það ár. Til að setja þessar tölur um veiðigjöld í samhengi við aðrar fjárhagsstærðir hefur Vífill Karlsson hagfræðingur hjá SSV bent á að 2,5 milljarðar króna í veiðigjöld sem fyrirtækin í kjördæminu eru að borga er álíka há upphæð og heildartekjur 2500 íbúa sveitarfélags. „Snæfellsbær sem er með tekjuhærri sveitarfélögum og með íbúafjölda í kringum 1.650 er með heildartekjur upp á 1.850 milljónir króna,“ segir Vífill.

Afnám sérstakrar lækkunar veiðigjalda hefur umtalsverð áhrif á fyrirtækin í landshlutanum. Reiknar Deliotte það út að ebitda væri um 7% lægri ef sérstakrar lækkunar veiðigjalda nyti ekki við, en þar er um að ræða skuldaaflátt. Greindar eru í skýrslunni tekjur og ebitda framlegð þessara ára sem og greiðslugeta og arðsemi eiginfjár fyrirtækjanna. Meðal helstu niðurstaðna þá lækkaði ebitda framlegð sjávarútvegsfélaga í Norðvesturkjördæmi um 38% milli áranna 2016 og 2017. Tekjur fyrirtækjanna drógust saman um 19% milli ára, en kostnaður lækkaði jafnframt nokkuð. Samanlögð ebitda þeirra 40 félaga sem mynda úrtakið nam 4,6 milljörðum króna árið 2017. Arðsemi eigin fjár var 4,8%. Á því tímabili sem var til skoðunar þróuðust ytri hagstærðir almennt með neikvæðum hætti fyrir sjávarútvegsfyrirtæki. Verðlag sjávarafurða hefur lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hefur hækkað töluvert. Einnig hafði tveggja mánaða verkfall sjómanna neikvæð áhrif á tekjumyndun og framlegð félaganna á fiskveiðiárinu. Þá kemur fram að ebitda framlegð félaga sem stunda vinnslu dróst meira saman en þeirra sem einungis eru í útgerð. Afkoma og tekjur lækkuðu í öllum veiðikerfum en hlutfallslega var samdráttur mestur hjá félögum í aflamarkskerfi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir