Varúðarreglu beitt við úthlutun veiðikvóta úr rjúpnastofninum

Umhverfisstofnun hefur gefið það út að fjöldi veiðidaga á rjúpu verða tólf nú í vetur, líkt og undanfarin ár. Skiptast veiðidagar á fjórar samliggjandi helgar og verður fyrsti veiðidagur föstudagurinn 26. október, sú helgi öll og í kjölfarið þrjár fyrstu helgarnar í nóvember. Þann 12. september síðastliðinn boðaði Náttúrufræðistofnun Íslands til samráðsfundar með Skotvís, þar sem farið var yfir ástand rjúpnastofnsins og metin áhrif veiðistjórnunar. Að mati Náttúrufræðistofnunar er áætlaður veiðistofn rjúpu um eða yfir 900 þúsund fuglar, sem jafnframt er með stærstu mælingum frá upphafi talningar árið 1981. Ráðlagði stofnunin engu að síður að beita ætti varúðarreglu og að veiðiþol úr stofninum yrði 67 þúsund fuglar að þessu sinni. Ef varúðarreglu hefði ekki verið beitt, væri veiðiþol úr stofninum 89 þúsund rjúpur.

Rökstuðningur Náttúrufræðistofnunar fyrir varúðarreglu er að sökum slæmrar tíðar á suðvestanverðu landinu í sumar sé rétt að leyfa rjúpnastofninum að njóta vafans. Skotvís gagnrýnir harðlega að beitt sé varúðarreglu við úthlutun veiðikvóta að þessu sinni og telur ekki efnislegar forsendur til þess. Félagið sendir engu að síður þessi skilaboð til veiðimanna: „Þrátt fyrir þessa annmarka á ráðgjöf NÍ hvetur Skotvís veiðimenn til að veiða hóflega nú í haust, ganga vel um veiðislóð, hirða upp notuð skothylki, bæði sín og annarra. Góður skotveiðimaður kynnir sér lög og reglur og siðareglur Skotvís áður en haldið er til veiða, kemur vel fram og er veiðimönnum til sóma.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira