Hítardalur.

Vodafone vill leggja af fjarskiptasamband í Hítardal

Finnbogi Leifsson bóndi í Hítardal skrifaði Borgarbyggð bréf í lok síðasta mánaðar vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í fjarskiptamálum á jörð hans. Lagði hann máli sínu til stuðnings fram bréf frá fjarskiptafyrirrtækinu Vodafone þar sem honum var tilkynnt að fyrirtækið muni leggja af þráðlaust fjarskiptakerfi Lofthraða/eMax um komandi áramót. Afleiðing þess verður að Hítardalur verður þá algjörlega án fjarskiptasambands. Í bókun byggðarráðs vegna málsins kemur fram að ekki sé kunnugt, enn sem komið er, um fleiri bæi í Borgarbyggð sem lenda í sambærilegri stöðu vegna þessara breytinga hjá fyrirtækinu. „Með tilvísan til samnings sem gerður var um þessi mál á árinu 2004 við Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhrepp og Skorradalshrepp og ekki hefur verið sagt upp, þá hefur sveitarstjóri ritað Vodafone bréf þar sem farið er fram á viðræður um þá stöðu sem upp kemur í kjölfar lokunarinnar,“ segir í bókun byggðarráðs.

Segir skilvirkara að senda sér reykmerki

Fjarskiptasamband hefur um árabil verið afar óstöðugt í Hítardal. Nægir í því sambandi að rifja upp frétt í Skessuhorni frá 2015. Þar var sagt frá því að víða til sveita væri farsíma- og netsamband stopult eða ekkert. Slíkt sé engan veginn bjóðandi fólki því samskiptaleiðir nútímans og búsetuskilyrði byggja á þessari tækni. En staðreyndin er sú að símafyrirtækin eru markaðsdrifin. Ef fáir viðskiptavinir eru á tilgreindu svæði, þykir þeim ekki svara kostnaði að tengja svæðið þessum nútíma búnaði. Þannig er sem dæmi ekkert farsímasamband á bænum Hítardal á Mýrum né inn við Hítarvatn, þangað sem fjöldi fólks leggur á hverju sumri leið sína til silungsveiða. Finnbogi bóndi í Hítardal sagði í fréttinni frá 2015 að hann færi yfirleitt nokkrar ferðir á sumri inn að vatni til að finna fólk, sem ekki hefur náðst samband við. „Það er mikið öryggisatriði að hafa síma. Fólk reiðir sig á þá. Aðstandendur verða því skelkaðir ef ekki næst í ástvinina, sem er eðlilegt. Fólk hefur ekki skilning eða vitneskju um að það séu svona blettir á landinu þar sem ekkert símasamband er.“ Sjálfur segist Finnbogi í færslu á Fésbók 2015 vera orðinn þreyttur á þessu ástandi. Sjálfur situr hann í sveitarstjórn Borgarbyggðar og sem slíkur fær hann mörg erindi inn á sitt borð. „Ég er alveg að verða vitlaus á því að vera ekki í farsímasambandi, aðallega af því að þegar ég fer að heiman og kemst í samband á þriggja daga fresti eða svo, bíða mín allt upp í 50 skilaboð. Þá hringja sumir að því er virðist með afar stuttu millibili,“ segir Finnbogi en bætir við: „Vinsamlega hringið ekki í farsímann hjá mér, sendið frekar reykmerki með Morse kerfinu!“

Nýlega sagði Finnbogi í samtali við blaðamann að einfalt væri að leysa þetta sambandsleysi. „Það er til einföld lausn á málinu. Þar horfi ég á hlöðuna í Fíflholtum. Þaðan er bein lína inn að gangnamannakofanum inn við Hítarvatn. Þar er einnig endurvarp á Interneti þannig að kannski væri ekki mikið mál að bæta símasambandi við,“ segir hann. Aðspurður hvort til standi að bæta ástandið í símamálum, svaraði Finnbogi því til árið 2015 að hann vissi ekki til þess, alltof margar sveitir glími við sama vandamál. Nú er langt liðið á 2018. Ekkert hefur breyst á þeim tíma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir