Samningaviðræður um lúkningu mála vegna Borgarbrautar 55

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í gær kom til afgreiðslu tillaga að lúkningu máls sem snertir fyrirtækin tvö sem hafa starfsemi á lóðinni Borgarbraut 55 í Borgarnesi. Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns snýst það mál um athafnalóð þar sem tvö fyrirtæki hafa starfsemi; verslun Líflands annars vegar og Bifreiðaþjónusta Harðar ehf. hins vegar. Fyrir liggur að 50 ára leigusamningur um lóðina verður ekki endurnýjaður, en hann rennur út í apríl á næsta ári. Sveitarstjórn staðfesti samhljóða fyrri afgreiðslu byggðarráðs þar sem lagt var fram tilboð um lúkningu málsins og hefur lögmaður Borgarbyggðar fyrir hönd sveitarfélagsins gert fyrirtækjunum tilboð í fasteignina. Kveður þannig við nýjan tón ef vísað er til fyrri samskipta sveitarfélagsins við lóðarhafa og ítarlega hefur verið fjallað um í Skessuhorni.

Borgarbyggð býðst nú til að leysa til sín mannvirkin á lóðinni fyrir fasteignamatsverð að frádregnu lóðarmati. Samtals er fasteignamat beggja eignarhluta um 40 milljónir króna. Sveitarfélagið mun auk þess annast niðurrif hússins og bera kostnað af því sem og jarðvegsskipti. Fyrirtækjunum er boðið tveggja ára svigrúm til að koma starfsemi sinni fyrir á öðrum stað og beinlínis óskað eftir því að þau finni sér annan stað innan sveitarfélagsins. Tekið er fram að sveitarfélagið geti úthlutað fyrirtækjunum lóð/lóðum sem hafa verið auglýstar og er þar vísað til vinnureglna frá 2007 um úthlutun lóða. Þá er í tilboðinu boðið, sem hluta samkomulags og ef þörf krefur, að Borgarbyggð muni mæla með því við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands að Bifreiðaþjónustu Harðar ehf. fái tímabundið starfsleyfi á meðan á tveggja ára tímabili samningsins rennur út.

Eigendum fasteigna að Borgarbraut 55 er veittur frestur til 1. nóvember nk. til að svara tilboðinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir