Brúin komin á sinn stað yfir Norðlingafljót. Ljósm. Skúli Sveinbjörnsson.

Brú komin yfir Norðlingafljót við Helluvað

Í gærkvöldi var ný brú reist yfir Norðlingafljót ofan við Helluvað á Arnarvatnsheiði. Búið var að steypa veglega brúarstöpla á hraunkantinn sitthvorum megin við ána en sjálf brúin var sett saman á landi og hífð á sinn stað með 250 tonna krana. Áætlað er að um næstu mánaðamót ljúki vinnu við brúna og vegagerð. Það eru Vestfirskir verktakar ehf. sem tóku brúarsmíðina að sér og hefur verkið gengið prýðilega að sögn starfmanna fyrirtækisins. Vegagerð og fylling að brúnni er í höndum Þorsteins Guðmundssonar á Fróðastöðum og fleiri vel tækjum búinna Borgfirðinga. Óhætt er að segja að hér sé um mikla samgöngubót að ræða en með brúnni kemst á vegtenging milli Miðfjarðar í Húnavatnssýslu og uppsveita Borgarfjarðar fyrir alla jepplinga og þokkalega útbúna bíla. Brúin mun því, auk þess að bæta umferðaröryggi, fela í sér sóknarfæri í ferðaþjónustu. Aðgengi að veiði og til almennrar náttúruskoðunar stórbatnar, en við góðar veðuraðstæður er stórbrotin fjallasýn efst af Arnarvatnshæðum. Norðlingafljót hefur fram til þessa einungis verið fært vel búnum jeppum og varhugavert eða ófært til aksturs meginhluta vetrar, en áin getur auk þess orðið mjög vatnsmikið að kvöldi heitra sumardaga þegar snjóbráð er úr jöklunum.

Til að koma tækjum og búnaði að Norðlingafljóti var vegurinn frá Surtshelli og upp Hallmundarhraun lagfærður til að byggingakrani og búnaður honum tengist kæmist á staðinn. 250 tonna krana frá DS lausnum var ekið á svæðið. Stálbitar í brúna voru settir saman á hraunkantinum við ána og hluta burðarbita í brúargólfinu komið fyrir. Þegar átti að hífa mannvirkið á stöplana undir kvöld í gær kom hins vegar í ljós að þyngd mannvirkisins var of mikil til að kraninn næði að lyfta, eða yfir 30 tonn. Í ljósi ótryggrar veðurspár daginn eftir var því brugðið á það ráð að taka af brúargólfinu flesta bitana og létta hana með þeim hætti. Var það gert og lokið við að hífa brúna síðar í gærkvöldi. Á næstu dögum verður haldið áfram að klæða brúargólfið, setja upp vegrið og fylla að endum brúarinnar beggja vegna. Eins og fyrr segir er stefnt á að akfært verði yfir nýju brúna um næstu mánaðamót.

Brúin samsett á hraunkantinum við ána skömmu áður en hún var hífð. Ljósm. mm

Hér má sjá brúarstöplana skömmu áður en brúin var hífð.

Stálbitarnir í burðarvirki brúarinnar er eins og sjá má rammgerðir, eða metri á hæð.

Gamli vegvísirinn við Helluvað, fjær er brúarstæðið og Eiríksjökull vakir yfir. Ljósm. mm.

Brúarsmiðir notuðu gúmmíbát og kaðla til fara á milli árbakka.

Næststærsti byggingakrani landsins var fenginn til að hífa brúna. Hér er verið að undirbúa verkið, en meðal annars þurfti að flytja 70 tonn af þyngingum á staðinn til að kraninn næði að lyfta brúnni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stangveiðar með drónum

Þegar blaðamaður Skessuhorns renndi niður Facebook í morgun rakst hann á athyglisverða auglýsingu. Þar auglýsti Suður-Afríska fyrirtækið Gannet búnað fyrir... Lesa meira