Margrét Sif Sævarsdóttir formaður Umf. Víkings/Reynis. Ljósm. þa.

Ungmennafélagið Víkingur er 90 ára

Ungmennafélagið Víkingur í Snæfellsbæ var 90 ára 6. október síðastliðinn. Haldið var upp á daginn og bauð félagið til veislu í Íþróttahúsi Snæfellsbæjar á sunnudaginn. Margrét Sif Sævarsdóttir formaður Umf. Víkings/Reynis bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá sögu félagsins. Þar kom meðal annars fram að þegar Víkingur var stofnaður var það eins og flest ungmennafélög á þeim tíma meira eins og málfundafélag en íþróttafélag og tók virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni. Starfsemi félagsins fór þó að breytast í kringum 1940 og starfsemin að færast meira yfir í íþróttir. Það var svo í kringum 1969 sem félagið eignaðist merkið sitt sem notað hefur verið síðan. Það var Helgi Jónsson, starfsmaður rafveitunnar í Ólafsvík á þeim tíma, sem teiknaði merkið. Voru frjálsar íþróttir fyrirferðamiklar til að byrja með.

Margar deildir hafa starfað innan Víkings og verið mjög öflugar. Til dæmis stóð krakkablakdeild félagsins fyrir tveimur Íslandsmótum. Einnig hafa starfað júdódeild, sunddeild, skíðadeild, fimleikar og körfubolti svo eitthvað sé nefnt. Knattspyrnudeild félagsins hefur á undaförnum árum vakið verðskuldaða athygli fyrir árangur sinn. En það var í kringum 1960 sem knattspyrnan hófst fyrir alvöru í Ólafsvík. Voru það þeir Gylfi Scheving og Sigurður Rúnar Elíasson sem lögðu þung lóð á vogarskálina í þeirri þróun. En félagið hefur frá árinu 1967 tekið þátt í Íslandsmóti í knattspyrnu annaðhvort undir merkjum Víkings eða HSH. Framan af flakkaði liðið milli deilda en í fyrsta sinn sumarið 2012 vann það sér þátttökurétt í deild hinna bestu og lék í efstu deild í fyrsta sinn árið 2013. Hefur liðið síðan einnig spilað í efstu deild árin 2016 og 2017 og tvívegis komist í undanúrslit bikarmótsins. Barna- og unglingastarf félagsins hefur undanfarin ár verið í samstarfi við Ungmennafélagið Reyni sem og önnur félag á Snæfellsnesi og það gengið vel.

Að loknum ræðuhöldum á sunnudaginn var boðið upp á veitingar, kaffi, Svala og afmælisköku. Börnin gátu svo notið sín í íþróttahúsinu við að leika sér í hoppukastala og fleiri þrautum sem í boði voru.

Líkar þetta

Fleiri fréttir