Svipmynd frá leit í fjallinu í september þegar banaslys varð þar. Ljósm. tfk.

Kona hætt komin í Kirkjufelli

Björgunarsveitarfólk af Snæfellsnesi, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitarfólk víðar af Vesturlandi ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar náðu fyrr í kvöld að bjarga tvítugri franskri konu úr hlíðum Kirkjufells í Grundarfirði. Að sögn björgunaraðila sem Skessuhorn ræddi við í kvöld voru aðstæður til leitar og björgunar mjög varasamar; krapi í hlíðum fjallsins og mjög hált. Konan mun hafa slasast á höfði og á fæti við það að renna niður snarbratta hlíð í fjallinu. Stöðvaðist hún einungis feti frá fjallsbrún, þaðan sem lóðrétt fall var tugi metra niður. Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Náði konan að skorða sig fasta og gera vart við sig með að hringja. Þegar björgunaraðilar komu að konunni var hún orðin mjög köld og við það að líða útaf. Náðist að koma henni í búnað til að hægt væri að hífa hana um borð í þyrlu Gæslunnar sem flaug með konuna á sjúkrahús í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum Skessuhorns lögðu björgunaraðilar sig í hættu við leit og björgun í kvöld.

Í ljósi banaslyss í fjallinu í fyrra, annars banaslyss fyrir hálfum mánuði og þessa slyss í kvöld er nú sterk umræða meðal björgunarfólks og fleiri um að takmarka verði eða jafnvel banna með öllu göngur á Kirkjufell yfir vetrartímann. Ekki sé lengur verjandi að fólk, jafnvel ekki vant fjallgöngum, reyni við uppgöngu á fjallið óháð veðri, færð, búnaði, klæðnaði og aðstæðum almennt. Því máli verður hreyft við yfirvöld strax á morgun.

Líkar þetta

Fleiri fréttir