Slátrun hefst í dag í Brákarey

Slátrun hefst í dag í Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey í Borgarnesi. Hópur áhugafólks um rekstur sláturhúss hefur tekið húsnæðið á leigu til tíu ára og er Þorvaldur T Jónsson bóndi í Hjarðarholti í forsvari fyrir hópinn. Stefnt er að rekstri þjónustusláturhúss allt árið. „Þar sem við byrjum nú að hausti verða verkefni okkar fyrstu vikurnar dilkaslátrun. Þetta er hins vegar viðurkennt stórgripasláturhús þannig að við munum þegar fram líður taka nautgripi og hross til slátrunar og eftir atvikum svín einnig,“ sagði Þorvaldur í samtali við Skessuhorn.

Fyrir liggja öll leyfi til slátrunar í húsinu og hefur eftirlitsdýralæknir frá Matvælastofnun tekið húsnæðið út. „Þetta lítur því allt saman vel út og engar hömlur á að við getum byrjað starfsemi. Slátrað var í húsinu í fyrrahaust og til áramóta en síðan hefur starfsemi legið niðri í húsinu. Nú stefnum við að rekstri allt árið og verður fyrirkomulagið þannig að slátrað verður þrjá daga í viku.“ Ásamt Þorvaldi eru í undirbúningshópi að rekstri sláturhússins Eiríkur Blöndal, Guðjón Kristjánsson og Guðrún Sigurjónsdóttir. „Við vonumst síðan til að fleiri komi að þessu með okkur og stefnum á að stofnað verði einkahlutafélag um reksturinn. Þörfin fyrir þjónustusláturhús er vissulega til staðar enda margir sem hyggja á sölu kjöts beint frá býli. Til að byrja með munu bændur þó selja afurðirnar sjálfir en við hyggjumst reyna að koma okkur upp söluleyfi þannig að sláturhúsið geti selt til verslana og annarra kaupenda í umboði bænda.“ Aðspurður segir Þorvaldur að vel líti út með mönnun starfa við slátrunina, von sé á nokkrum vönum slátrurum en þó megi bæta við fleiri ef áhugasamir eru til staðar á svæðinu. Varðandi innlegg og aðrar upplýsingar svarar Þorvaldur fyrir það í síma 853-6464.

Líkar þetta

Fleiri fréttir