REKO hringir um milliliðalaus viðskipti

Matarauður Íslands hefur í samstarfi við Bændasamtök Íslands unnið að því að koma REKO hugmyndafræðinni af stað hér á landi og nú hafa fyrstu hóparnir verið myndaðir. REKO stendur fyrir milliliðalaus viðskipti milli framleiðenda og kaupenda og fara sú viðskipti fram í gegnum Facebook. „Tilgangurinn er að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og kaupendur nær hver öðrum, gera matarhandverki og heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjuna. REKO er tekið úr sænsku og er stytting á: Vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir,“ segir Oddný Anna Björnsdóttir sem unnið hefur að verkefninu fyrir Matarauð Íslands.

REKO gengur þannig fyrir sig að stofnaðir eru svæðisbundnir Facebook hópar og hafa m.a. verið stofnaðir hópar fyrir Vesturland (REKO Vesturland) og höfuðborgarsvæið (REKO Reykjavík). Í þá hópa skrá sig framleiðendur sem hafa áhuga á að selja vörur sínar þar sem og neytendur og aðrir sem hafa áhuga á að kaupa af þeim. Ákveðnir eru afhendingardagar og er stofnaður viðburður í kringum hvern afhendingardag í Facebook hópunum. Inn í viðburðina setja framleiðendur inn færslur þar sem þeir tilgreina hvað þeir hafa í boði, til dæmis kjöt, fisk, egg, sjávarfang, grænmeti, brauð og kökur, osta og sultur. Jafnframt er tilgreint hvað varan kostar. Dæmi: „Er með 40 bakka af landnámshænueggjum á x krónur bakkann (10 egg í bakka).“ Undir hverja færslu setja áhugasamir kaupendur inn athugasemd þar sem þeir tilgreina hvað þeir vilji kaupa og hve mikið. Kaupendur greiða framleiðandanum rafrænt fyrir það sem þeir ætla að kaupa, fyrir afhendingardaginn. Á afhendingardeginum afhenda framleiðendur kaupendum síðan vörurnar milliliðalaust.

Fyrsta afhending REKO Vesturlands verður laugardaginn 13. október kl. 11-12 á bílaplani Krónunnar á Akranesi og REKO Reykjavík sama dag kl. 13-14 á bílaplani Krónunnar í Lindum. Sömu framleiðendur geta tekið þátt í báðum hópum.

Þeir framleiðendur sem hafa áhuga á að taka þátt hafi samband við Hlédísi Sveinsdóttur hjá Matarauði Vesturlands (REKO Akranes), Arnheiði Hjörleifsdóttur bónda (REKO Reykjavík) eða Oddnýju Önnu Björnsdóttur hjá Matarauði Íslands (tengt báðum).

Líkar þetta

Fleiri fréttir