Umboðsskrifstofum VÍS í Borgarnesi og Akranesi verður lokað. Hér er skrifstofan á Akranesi.

VÍS lokar umboðsskrifstofum sínum á Vesturlandi

Stjórn tryggingafélagsins VÍS ásamt stjórnendum fyrirtækisins hafa í sameiningu mótað þá framtíðarsýn fyrir VÍS að félagið verði stafrænt þjónustufyrirtæki. Í því felst að félagið hyggst loka fjölda þjónustustaða á landsbyggðinni strax um næstu mánaðamót og skerða þjónustu. Svokölluð tryggingaumboð VÍS sem og þjónustuaðilum á fjölmörgum smærri stöðum, svo sem í Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, hætta starfsemi. Umboðsskriftofum á Akranesi og Borgarnesi verður einnig lokað og þær sameinaðar skrifstofunni í Reykjavík. Starfsfólki á báðum þessum stöðum er boðin vinna í Reykjavík. Þjónustuskrifstofur á landsbyggðinni verða eftir næstu mánaðamót sex talsins; þ.e. á Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði og Reykjavík. Í tilkynningu frá Helga Bjarnasyni forstjóra VÍS til umboðsaðila, sem Skessuhorn hefur undir höndum, segir m.a: „Við lítum á landið sem eitt þjónustusvæði, hættum að skipta landinu í umdæmi og leggjum niður störf umdæmisstjóra.“

Meðvitaður um að breytingin falli misvel í kramið

Í tilkynningu Helga segir einnig: „Við sjáum skýr merki um að viðskiptavinir okkar vilja í síauknum mæli nota stafrænar leiðir til að eiga við okkur samskipti. Okkar trú er að sú eftirspurn muni fara vaxandi og kjarninn í okkar vegferð næstu misseri verður að efla þjónustuna okkar á því sviði, með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi.“ Þá segir Helgi þetta vera umfangsmiklar breytingar; „en ég er sannfærður um að þetta séu nauðsynleg skref til að ná þeim árangri sem við stefnum að og þeirri framtíðarsýn sem við höfum sett okkur. Við erum í grunninn að breyta því hvernig við veitum þjónustu með það að markmiði að hún verði einfaldari og aðgengilegri, óháð búsetu. Viðskiptavinir okkar um allt land munu eftir sem áður fá framúrskarandi tjónaþjónustu. Ég hef fullan skilning á því að til skamms tíma muni einhverjum líka þessar breytingar misvel en ég trúi að til lengri tíma muni þær reynast viðskiptavinum okkar vel.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir