Gjaldskýlin við Hvalfjarðargöng. Ljósm. úr safni.

Fyrst um sinn verður mönnuð vakt í skýlinu við Hvalfjarðargöng

Eins og Skessuhorn hefur áður greint frá verða Hvalfjarðargöng afhent Vegagerðinni til eignar sunnudaginn 30. september næstkomandi en gjaldtöku verður hætt föstudaginn 28. september. Að sögn Magnúsar Vals Jóhannssonar, framkvæmdastjóra mannvirkjasviðs hjá Vegagerðinni, verður mönnuð vakt í skýlinu við göngin fyrst um sinn. „Til að byrja með verðum við áfram með vakt í skýlinu yfir umferðaþyngsta tíma sólarhringsins. Allt viðmót gagnvart vegfarendum verður raunar eins og verið hefur, utan þess að þeir þurfa ekki að borga fyrir að aka í gegnum göngin,“ segir Magnús Valur í samtali við Skessuhorn.

Aðspurður segist Magnús Valur ekki vita hversu lengi áætlað er að hafa mannaða vakt í skýlinu. „Það verður að koma í ljós hvernig þetta mun þróast. Vegagerðin er nýr rekstaraðili ganganna og hefur ekki enn reynsluna til að sjá út hvernig best er að haga þessu. Á vaktstöð okkar í Reykjavík munum við hafa augu á göngunum í gegnum myndavélakerfi allan sólarhringinn. Ef ökumenn þurfa aðstoð í göngunum þarf oft að kalla út dráttarbíl og við getum gert það frá vaktstöðinni rétt eins og ef við værum á staðnum,“ segir Magnús Valur og bætir því við að ef slys verður í Hvalfjarðargöngum muni Vegagerðin bregðast við því eins og öllum öðrum slysum. „Við munum bregðast strax við og kalla út viðbragðsaðila. Eins og er sé ég ekki þörf fyrir að við séum sjálf með mannskap á svæðinu öllum stundum því við höfum myndavélar. En þetta mun koma betur í ljós þegar við höfum tekið við rekstrinum,“ segir Magnús Valur.

 

Ítreka mikilvægi vöktunar á staðnum

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar í gær var tekið fyrir erindi Spalar ehf. þar sem greint var frá afhendingu Hvalfjarðarganga, en erindið var sent á alla hluthafa félagsins. Af þessu tilefni bókaði bæjarráð:

„Bæjarráð fagnar þessum merku tímamótum og leggur áherslu á að áætluð tímamörk um yfirtöku ríkisins á Hvalfjarðargöngum standist og að framkvæmdin verði með þeim hætti að það sé ekki til tjóns fyrir hluthafa Spalar ehf. og Eignarhaldsfélag Spalar hf. Bæjarráð fagnar þeim fréttum að áfram verði mönnuð vakt í Hvalfjarðargöngunum eftir yfirtöku ríkisins. Bæjarráð telur mjög mikilvægt að áfram verði öryggi þeirra sem um göngin fara í fyrirrúmi líkt og verið hefur í tíð Spalar.“

Í tilkynningu Spalar kemur fram að settur sé fyrirvari um tímasetningu að þeim forsendum gefnum að Ríkisskattstjóri fallist á tiltekna meðferð á skattalegri afskrift ganganna og að Samgöngustofa skili fyrirvaralausri úttekt á göngunum í aðdraganda eigendaskiptanna. „Þetta er mikið hagsmunamál fyrir íbúa Akraness, íbúa Vesturlands og alla íbúa á landinu. Mikilvægt er að þetta sér gert rétt, gert vel og að allir gangi sáttir frá borðinu,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir